Skoðun

Biðlistar eftir húsnæði styttast á vakt VG

Elín Oddný Sigurðardóttir skrifar
Húsnæðismál og skortur á húsnæði hefur verið mikið vandamál allt frá hruni. Samkvæmt húsnæðisstefnu borgarinnar skal tryggja nægjanlegt framboð af stöðugu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði. Í stöðuskýrslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun frá árinu 2018 er bent á mikilvægi þess að auka framboð leiguhúsnæðis á eðlilegum kjörum á Íslandi. Félagslegum leiguíbúðum sveitarfélaga ber að tryggja einstaklingum og fjölskyldum með lágar tekjur öruggt húsnæði á boðlegum kjörum.

Biðlistar eftir félagslegu húsnæði lengdust til muna eftir efnahagshrunið 2008 þegar ófremdar ástand ríkti á húsnæðismarkaði. Á kjörtímabilinu 2014 - 2018 fjölgaði félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík um 400, og gera áætlanir borgarinnar ráð fyrir að fjölga þeim um 600 til viðbótar til ársins 2023. Tæplega áttatíu prósent alls félaglegs leiguhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er í Reykjavik, en þar búa rúmlega 56% íbúa svæðisins. Í Reykjavík eru um 20 félagslegar fyrir hverja þúsund íbúa, en í Garðabæ er sama hlutfall um 2 íbúðir á hverja þúsund íbúa. Ef hlutfall félagslegra leiguíbúða væri það sama í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjavík væru því um þúsund fleiri félagslegar leiguíbúðir á svæðinu en raunin er.

Nú þegar hafa verið keyptar 82 ibúðir á fyrstu átta mánuðum ársins og gera áætlanir ráð fyrir að fjölga þeim um alls 125 til ársloka. Á fyrstu sjö mánuðum ársins fengu alls 117 einstaklingar og fjölskyldur úthlutað félagslegu leiguhúsnæði í Reykjavík. Í ágúst var 31 ibúð úthlutað, eða einni á hverjum einasta degi. Umsækjendum á biðlista eftir félagslegu húsnæði hefur fækkað um rúm 20% frá sama tíma í fyrra. Núverandi áform um fjölgun íbúða byggja á ítarlegri þarfagreiningu sem er raunhæf í framkvæmd.

Vinstri græn í borginni standa vaktina hér eftir sem hingað til og halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×