Skoðun

Tilgangurinn helgar ekki meðalið

Kristín Völundardóttir skrifar
Í þessari viku hafa samtökin Réttur barna á flótta birt myndbönd til stuðnings fjáröflunarátaki fyrir börn á flótta. Þar virðist tilgangurinn vera að slá upp spaugilegri mynd af störfum starfsfólks Útlendingastofnunar í þágu átaksins og til að koma á framfæri gagnrýni á meðferð mála þessa viðkvæma hóps. Það er gott og vel en ekki er hægt að láta hjá líða að gera athugasemdir við nálgun átaksins. Í myndböndum samtakanna er vegið gróflega að æru og heiðarleika starfsfólks Útlendingastofnunar og því gefið að sök að fylgja annarlegum sjónarmiðum í sínum störfum og að virða ekki þau lög og reglur sem þeim ber að fara eftir.

Það er eitt að hafa skoðun á því hvernig lög og reglur eru hér á landi og eftir atvikum hvort framkvæmd þeirra tryggi þau markmið sem sett eru fram í löggjöf. En að níða skóinn af því starfsfólki sem vinnur við þennan krefjandi málaflokk á hverjum degi er vægast sagt smekklaust og ófyrirleitið. Með því að beina spjótum sínum að starfsfólki, jafnvel undir því yfirskini að um grín sé að ræða, er reynt að hafa áhrif á vinnubrögð starfsfólksins sem og þá ímynd sem almenningur hefur af þeim einstaklingum sem vinna við þennan málaflokk, í þeim tilgangi væntanlega að þeir skammist sín fyrir að fara eftir sinni bestu sannfæringu í störfum sínum við framkvæmd laga og reglna.

Málefnalegri nálgun væri að beina gagnrýninni að þeim sem fara með stjórn þessa málaflokks og handhöfum löggjafarvaldsins og gera það með áreiðanlegum upplýsingum og hófstilltri orðræðu.

Höfundur er forstjóri Útlendingastofnunar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×