Nýr aðstoðarmaður dómsmálaráðherra er líklega vanhæfur til að fjalla um mál ríkislögreglustjóra. Þetta segir sérfræðingur í stjórnsýslulögum en fjallað verður ítarlega um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Blaðamannafélag Íslands sleit samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins í gær. Í fréttatímanum verður rætt við Hjálmar Jónsson, formann Blaðamannafélagsins, sem hyggst hvetja félagsmenn til að grípa til verkfallsaðgerða vegna þeirrar stöðu sem upp er kominn í kjaraviðræðum.
Í fréttatímanum segjum við einnig frá nýjustu vendingum vestanhafs vegna símtals Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og forseta Úkraínu þar sem Trump bað Úkraínumanninn að rannsaka pólitískan andstæðing sinn. Sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjastjórnar í Úkraínu sagði skyndilega af sér í gær.
Þá verður einnig rætt við flugmenn hjá Icelandair sem um helgina æfa sig í flughermi til að undirbúa ferjuflug Boeing 737 Max véla Icelandair sem fluttar verða til Frakklands eftir helgi. Vélarnar hafa verið kyrrsettar í nokkra mánuði eftir tvö banvæn flugslys.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis í opinni dagskrá klukkan 18:30.
