Yfirvöld Rússlands vonast til þess að ríkisstjórn Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, opinberi ekki upplýsingar um samtöl hans og Vladimir Pútín, forseta Rússlands. Þetta sagði Dmitry Peskov, talsmaður Pútín, í morgun varðandi opinberun uppskriftar símtals Trump og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu.
Það samtal hefur leitt til þess að Demókratar á þingi hafa hafið formlegt ákæruferli á hendur Trump fyrir embættisbrot.
Peskov sagði, samkvæmt Reuters, að það væru ekki hefðbundnir starfshættir að opinbera trúnaðargögn eins og símtöl þjóðarleiðtoga. Þá vonaðist hann til þess að slæmt samband Bandaríkjanna og Rússlands myndi ekki leiða til sambærilegra aðgerða varðandi Rússland.
Samtöl Trump og Pútín hafa þó verið umdeild með tilliti til þess að Trump og starfsmenn hans hafa gripið til aðgerða til að koma í veg fyrir að upplýsingar um þau samtöl dreifist. Í minnst einu tilfelli voru glósur túlks Trump til dæmis teknar af henni og henni skipað að ræða fundinn ekki. Það var eftir að Trump og Pútín ræddu saman í Hamborg í Þýskalandi árið 2017.
Í kjölfar þess kom í ljós að engar upplýsingar voru til um minnst fimm samskipti forsetanna tveggja, samkvæmt Washington Post.
Rússar vona að samtöl Pútín og Trump verði ekki opinberuð
Samúel Karl Ólason skrifar

Bandaríkin
Donald Trump
Forsetakosningar í Bandaríkjunum
Rússarannsóknin
Rússland
Ákæruferli þingsins gegn Trump
Úkraína