Skoðun

Kol­efnis­jöfnum ferða­lagið

Ólafur Þór Gunnarsson skrifar
Mikil vitundarvakning hefur verið undanfarið um loftslagsmál út um allan heim. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum, og stefnt er að kolefnishlutleysi árið 2040. En auðvitað er þetta ekki einvörðungu verkefni stjórnvalda, við verðum öll að koma að málum, almenningur, opinberir aðilar og atvinnulífið.

Í vikunni mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um að skylda ferðaþjónustufyrirtæki til að bjóða upp á kolefnisjöfnun. Málið er eitt forgangsmála þingflokks Vinstri grænna á þessu þingi. Ég tel að þetta sé mikilvægt skref fyrir land eins og Ísland sem ætlar sér á næstu árum og áratugum að hafa ferðaþjónustuna sem eina af stærstu atvinnugreinum landsins.

Tillagan gengur út á að fela ráðherrum ferðamála, umhverfis og samgangna að flytja lagafrumvarp sem leggur þessa skyldu á fyrirtæki og þjónustuaðila. Flugfélög sem selja ferðir, bílaleigur sem leigja bíla, rútufyrirtæki, ferðaskrifstofur og fleiri myndu þá til dæmis á heimasíðum sínum bjóða fólki að kolefnisjafna ferðina eða þjónustuna sem þau kaupa eftir vottuðu ferli. Þetta væri ekki íþyngjandi fyrir söluaðilana sem uppfæra allt sitt kynningarefni og sölusíður með reglubundnum hætti og valið væri neytandans.

Ákvarðanir í þágu umhverfis

Með þessari aðferð valdeflum við neytandann, auðveldum honum að leggja sitt af mörkum til að jafna kolefnisfótsporið sem óhjákvæmilega hlýst af nútíma ferðalögum.  Að svo stöddu er ekki lagt til að það verði skylda að leggja gjald á þjónustuna, heldur hafa kostnaðinn valkvæðan.

Umræða um flugviskubit hefur stungið upp kollinum á undanförnum misserum. Nagandi samviskubit sem fylgir þeirri mengun sem fæst af flugferðum. Það er ljóst að við verðum að breyta ferðavenjum okkar, en það er einnig ljóst að flugsamgöngur og aðrar mengandi samgöngur verða ekki lagðar niður með öllu.

Ég tel að með þessu hvetjum við fólk til að taka sjálft jákvæðar ákvarðanir í þágu umhverfisins en skylda ferðaþjónustuaðilans verður að gera fólki auðveldara að taka slíkar ákvarðanir.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×