Áætlað er að um 50 þúsund tonn hafi verið flutt út af fiski í gámum á síðasta ári. Sumir hafa lýst áhyggjum af þessu en málið var til umfjöllunar á fundi atvinnuveganefndar í morgun.
Sjá einnig: Kalla eftir aðgerðum til að sporna við fækkun starfa í fiskvinnslu
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir umræðunni í atvinnuveganefnd í dag. „Ég held að það sé auðvitað orðin alvarleg staða þegar að kaupendur á fiskmörkuðum eru farnir að kaupa fisk dýrum dómum og flytja hann erlendis dýrum dómum að þá held ég að við verðum að skoða hvað er að í kerfinu hjá okkur og hvort að við þurfum ekki að skoða skattlagningu og annað í greininni,“ segir Ásmundur í samtali við fréttastofu.

Í kvöldfréttum Rúv í gær sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, að hann hyggist ekki bregðast við auknum útflutningi á óunnum fiski. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar segjast hafa gríðarlegar áhyggjur af stöðunni og hafa lýst vonbrigðum með viðbrögð ráðherra. „Þetta eru ekki bara störf, þetta eru tekjur fyrir sveitarfélögin, þetta eru hafnargjöld, aðstöðugjöld og hitt og þetta þannig að þetta er grafalvarlegt mál,” segir Aðalsteinn Á Baldursson, formaður verkalýðsfélagsins Framsýnar, en hann var einn þeirra fulltrúa sem sátu fundinn fyrir hönd Starfsgreinasambandsins.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa bent á að aukningin í útflutningi á óunnum afla sé ekki mikil í sögulegum samanburði. Þannig hafi meðalútflutningur á ári frá árinu 1992 verið í kringum 44 þúsund tonn og dæmi séu um að áður hafi magnið farið vel yfir 50 þúsund tonn.

Hann segir hljóð og mynd ekki fara saman í málflutningi þeirra sem tali fyrir auknum álögum á sjávarútveginn. Samtökin hafa jafnframt bent á það að sá afli sem fluttur sé út óunninn sé aðeins lítið hlutfall af heildarafla.
