Vantrauststillagan var samþykkt á formannafundi Landssambands lögreglumanna í september og sagði Snorri Magnússon, formaður landssambandsins, að viðtal við ríkislögreglustjóra í Morgunblaðinu hafa verið kornið sem fyllti mælinn. Í viðtalinu ræddi Haraldur meðal annars spillingu innan lögreglunnar. Áslaug tekur undir að fjölmiðlafárið sé að miklu leyti komið til vegna þess að Haraldur sjálfur fór í umrætt viðtal og segist hún hafa verið ósátt við framgöngu hans í viðtalinu.
Sjá einnig: Viðtalið var kornið sem fyllti mælinn
„Já, ég var ósátt við viðtalið og sagði honum það. Ég var ósátt við það hvernig hann tjáði sig um málefni lögreglunnar,“ sagði Áslaug en hún fundaði með ríkislögreglustjóra þann 24. september þar sem ákveðið var að Haraldur sæti áfram í embætti, þrátt fyrir vantraustsyfirlýsingu lögreglustjóranna.

Sjá einnig: Rústabjörgun eða slökkvistarf
Áslaug sagði þó vera mikilvægt að líta til annarra þátta málsins, til að mynda að hér á landi hafi löggæsla verið efld gríðarlega og í hana væru settir miklir fjármunir, um það bil sautján milljarðar, sem þyrfti að forgangsraða vel.
„Staðan er þannig núna að það eru að renna meiri fjármunir til lögreglunnar en til dæmis árið 2007 þannig að staða lögreglunnar er góð, þar er mikið af góðu fólki, lögreglumenn um allt land að sinna mikilvægum störfum og ég ætla að vanda til verka þegar kemur að skipulagsbreytingum og öðru.“
Í dag bárust fréttir af því að tólf yfir- og aðstoðarlögregluþjónum hjá embætti ríkislögreglustjóra byðist nú betri launakjör en áður eftir samkomulag sem gert var í ágústmánuði. Með hinu nýja samkomulagi færast fimmtíu yfirvinnustundir í föst mánaðarlaun starfsmanna og aukast þar með lífeyrisréttindi þeirra sem greiða iðgjöld í B-deild LSR. Áslaug segist hafa óskað eftir skýringum á því frá ríkislögreglustjóra
„Þetta heyrir kannski ekki beint undir mig þessi ákvörðun en ég hef samt óskað eftir því frá ríkislögreglustjóra að fá aðeins rök fyrir því og við hverja hann hafði samráð og hvers vegna kannski þessar breytingar koma fram og ég hef óskað eftir því og gerði það í gær.“