Skoðun

Hver er gráðugur?

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Verktakar hafa tekið sig saman og stefnt Reykjavíkurborg vegna svokallaðra innviðagjalda sem borgin hefur innheimt á undanförnum árum í tengslum við uppbyggingu á húsnæðismarkaði. Gjaldið telja verktakarnir ólögmætt. Fjárhæðirnar nema milljörðum. Gjaldið skiptir almenning máli því það hefur áhrif til hækkunar á byggingarkostnaði sem aftur hefur áhrif til hækkunar fasteignaverðs, getur dregið úr framboði og rýrt hlut kaupenda, seljenda og leigjenda þegar á hólminn er komið.

Borgin hefur innheimt þessi tilteknu gjöld í ýmsu formi og undir ýmsum nöfnum undanfarin ár. Oft er óljóst hvaða forsendur liggja að baki ákvörðun um upphæð gjaldsins hverju sinni. Upphæðin er ólík milli svæða. Gjaldið hefur líka verið innheimt við uppbyggingu á svokölluðum þéttingarreitum – þar sem fyrir er enginn skortur á innviðum! Vitaskuld vekur slíkt spurningar um inn­heimtu gjaldsins og hvert fjármunirnir renna í raun.

Í stað þess að svara gagnrýni málefnalega, segir borgarstjóri boðað dómsmál til marks um eitthvað sem hann kallar „verktakagræðgi“. Álagning gjaldanna byggi á samningum sem verktakar hafi undirritað. Það sé því einkennilegt að þeir ætli sér nú að „stinga af frá reikningnum og velta kostnaðinum yfir á borgarbúa“. Gott og vel. Sennilega hafa báðir eitthvað til síns máls.

En þótt hagsmunaaðilar höfði dómsmálið má það ekki villa okkur sýn. Það er brýnt fyrir almenning að úr óvissunni um lögmæti gjaldsins sé skorið. Sem dæmi má nefna að innviðagjald á hvern fermetra í hinni nýju og um margt glæsilegu Vogabyggð er um 23 þúsund krónur. Það gerir 2,3 milljónir króna á hverja 100 fermetra íbúð. Í Vogabyggð nemur þessi skattstofn borgarinnar um fimm milljörðum króna. Munar um minna.

Frumskógarlögmál ríkir á húsnæðismarkaði. Kallað hefur verið eftir að stjórnvöld bregðist við. Hlutur sveitarfélaganna er þar mestur. Innviðagjaldið er enn lagt á uppbyggingarverkefni í borginni. Á næstu árum eru miklar framkvæmdir fyrirhugaðar.

Hvað sem meintu ólögmæti innviðagjalds líður, er það staðreynd að meirihlutinn í borginni hefur skorast undan ábyrgð á sjálfsögðu aðhaldi í rekstri. Til að bregðast við því heldur borgin ekki bara útsvari í hæsta lögleyfða marki heldur hækkar tekjustofna með ýmsum kúnstum, sem innviðagjaldið virðist vera skólabókardæmi um.

Að minnsta kosti hlýtur að teljast ólíklegt að stétt verktaka sé gráðugri en annað fólk. Viðbrögð borgarstjórans bera vott um valdhroka, í stað lausnamiðaðrar nálgunar á hvernig skuli leysa sjálfskapaðan bráðavanda á húsnæðismarkaði.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×