Donald Trump Bandaríkjaforseti ræddi við Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseta í síma í gær og segist hann hafa krafist þess að Tyrkir láti tafarlaust af hernaði sínum í norðausturhluta Sýrlands.
Að auki hafa Bandaríkjamenn ákveðið að setja viðskiptaþvinganir á nokkra tyrkneska ráðamenn auk þess sem til stendur að hækka tolla á tyrkneskt stál að nýju, en þeir voru lækkaðir fyrr á árinu.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, greindi frá símtali Trumps og Erdogan og sagðist sjálfur ætla að heimsækja Sýrland á allra næstu dögum til að lægja ófriðaröldurnar.
Gagnrýnendur Trump stjórnarinnar segja að hinar boðuðu aðgerðir séu tilraun til að bjarga andlitinu, enda var það sú ákvörðun Bandaríkjaforseta að draga hermenn sína til baka úr norðausturhéruðum Sýrlands sem varð til þess að Tyrkir áræddu að gera innrás á svæðið.
Erdogan segist ætla að mynda þar öryggissvæði þangað sem sýrlenskir flóttamenn verði sendir. Á það hefur verið bent að fæstir þeirra séu Kúrdar, sem byggja héruðin, og því gæti komið til átaka á milli hópanna í framtíðinni.
