Skoðun

Kæra Lilja Alfreðsdóttir

Áslaug Thorlacius skrifar
Þakka þér fyrir frábæra grein sem birtist í tilefni af Alþjóðlegum degi kennara, þar sem þú minnir á mikilvægi sköpunar í skólastarfi. Greinin er liður í átaki til að efla starf kennarans sem ég vil líka hrósa þér fyrir. Það er þarft verkefni.

Þó hlýt ég að benda á að á sama tíma og nemendum í kennaranámi bjóðast styrkir og laun, heldur menntamálaráðuneytið launum frábærra listgreinakennara niðri með engum eða óásættanlegum þjónustusamningum við einkarekna listaskóla. Ég þekki best til samnings Myndlistaskólans í Reykjavík en hann er þrískiptur og að stærstum hluta óverðtryggður. Upphæðirnar sem við fáum með ársnemanda hafa sumar staðið í sömu krónutölu frá upphafi árs 2015. Einn hluti samningsins fékk einmitt verðtryggingu 1. janúar 2015 en krónutalan sem lá til grundvallar var sú sama og við fengum árið 2011 þannig að hún var þá þegar algjörlega úr takti við allt raunhæft. Samningurinn sjálfur er fyrir löngu útrunninn en vegna vandræða innan ráðuneytisins er hann sífellt endurnýjaður í óbreyttri mynd. Þannig fáum við engan afslátt af okkar skyldum heldur skulu sömu verkefni áfram unnin fyrir sömu, gömlu úreltu krónutöluna! Það hljóta allir að sjá að slíkur rekstur endar illa í landi þar sem verðlag er ekki mjög stöðugt.

Kennarahópur Myndlistaskólans er frábær – listamenn og hönnuðir í fremstu röð og meirihlutinn með listkennslufræði til viðbótar við langt nám í sinni grein. Við erum stolt af okkar gamalgróna skóla og ég af mínu starfi – fyrir utan launin sem skólinn greiðir starfsfólki sínu en í samskiptum við ráðuneyti þitt er ég minni máttar og fæ litlu breytt. Í ljósi þinna eigin orða skora ég því á þig að sjá til þess að ráðuneyti þitt hætti að hlunnfara listamenn í kennslu. Það þarf að laga vonda samninga við listaskóla og semja við þá sem engan samning hafa.

Höfundur er skólameistari Myndlistaskólans í Reykjavík og formaður Samtaka sjálfstæðra listaskóla.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×