Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráði, segir kveikjuna vera samfellda fækkun barna í hverfinu. Munu breytingarnar fela í sér betri menntunarlegan aðbúnað fyrir börnin og bætta nýtingu fjármuna og leiða til meira jafnræðis á borgarvísu.
Nú sé svo komið að kostnaður á hvern nemanda í Korpuskóla er rúmlega tvöfalt meiri en við nemendur í grunnskólum borgarinnar að meðaltali. Á sjö árum hefur nemendafjöldinn farið úr 140 börnum í 59 en skólinn er byggður fyrir 170 börn. Börn í árgangi eru að meðaltali fjórum sinnum færri en í meðalskólanum í borginni og eru þau t.d. aðeins fjögur í 3. bekk.
„Slíkt fámenni er ávísun á verri aðbúnað fyrir börnin en við viljum bjóða okkar nemendum bæði varðandi námsframboð og félagaval. Markmið okkar er að geta boðið nemendum meiri fjölbreytni í námi og ekki síður félagslega, enda er félagsfærni einn af fimm veigamestu hæfnisþáttum nýrrar menntastefnu Reykjavíkur,“ segir Skúli.

Áformin hafa mætt töluverðri gagnrýni og foreldrar í hverfinu boðað aðgerðir. „Það er skiljanlegt að foreldrar sérstaklega yngstu barnanna í Staðarhverfi hafi áhyggjur af stöðu mála og við þeim munum við bregðast með því að tryggja yngstu börnunum skólaakstur frá Korpu í Engjaskóla þar sem fjarlægðin er 1,7 km. og skipuleggja nauðsynlegar samgöngubætur til að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda,“ segir Skúli.
„Þær fela m.a. í sér að gerð verði örugg göngu- og hjólaleið við Strandveg/Víkurveg á milli Garðsstaða og Breiðavíkur, sett verði upp gönguljós og þrenging götu við Mosaveg og unnið verði að úrbótum á almenningssamgöngum í samvinnu við Strætó, með áherslu á fjölgun biðstöðva og tíðari ferðir.“
Varðandi nýtingu húsnæðisins í Korpu segir Skúli að farið verði vel yfir allar góðar hugmyndir. „Vilji okkar stendur til þess að það verði áfram nýtt í þágu skóla- og frístundastarfs. Þar hafa ýmsir kostir verið nefndir, leikskólastarfsemi, samstarf við sjálfstætt starfandi skóla o.s.frv.“
Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fór fram á að málinu yrði frestað á fundinum í gær. „Það er ýmislegt sem á eftir að skoða. Það er hætta á að borgin verði skaðabótaskyld ef íbúðaverð lækkar vegna lokunar skólans,“ segir Valgerður.
Vísar hún í kvörtun íbúa til umboðsmanns Alþingis árið 2012 þar sem talað er um að verðmæti fasteigna geti rýrnað. „Ef íbúi getur fært sönnur á það að verðmæti fasteignar hafi rýrnað, þá getur borgin neyðst til að greiða skaðabætur.“