Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist hafa verið brugðist og ef ásakanir reynist réttar sé málið Samherja til skammar og stórt áhyggjuefni fyrir íslenskt atvinnulíf í heild sinni.
„Það liggur líka fyrir að íslensk stjórnvöld munu eiga samráð við stjórnvöld í öðrum löndum um framhald málsins.“
Hvaða lönd eru það?
„Auðvitað þau lönd sem þarna koma við sögu, eðli málsins samkvæmt,“ segir Katrín.
Þarf kannski að endurskoða það hámark sem hvert og eitt útgerðarfrirtæki má eiga af veiðiheimildum?
„Við gerum auðvitað þá kröfu, alveg sama hvað fyrirtæki eru stór, að þau fari að íslenskum lögum og þau fari að lögum í löndum sem þau starfa. Það er stóra málið í þessu máli. En þetta sýnir okkur líka að það er kannski full þörf á að fara yfir hvað er hægt að gera betur. Ég vil minna á í því samhengi á frumvarp sem ég hef lagt fram á Alþingi og verður vonandi tekið til umræðu hér á næstunni um vernd uppljóstrara,“ segir forsætisráðherra.
Allir stjórnarflokkarnir ásamt Samfylkingu hafa fengið styrki frá Samherja í gegnum árin, þar af Vinstri græn rétt rúmlega milljón frá árinu 2013.

„Ég sendi tölvupóst á mitt fólk í stjórn Vinstri grænna í morgun og lagði til að við myndum skoða það að skila þessum styrkjum,“ segir Katrín.
Formenn hinna stjórnarflokkanna svöruðu þessari spurningu með öðrum hætti en Katrín eins og sjá má í viðtölum við ráðherrana í heild sinni á Vísi, ásamt sjónvarpsviðtali við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur tengst Samherja á árum áður.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði málið dapurlegt í alla staði.
„Bæði vísbendingar um mútugreiðslur. Skattundanskot,“ segir Bjarni. „Í þessu tiltekna máli koma bæði Máritíus og Kýpur við sögu og það vill þannig til að við höfum gengið frá samningum við þessi ríki sem tryggja okkur aðgang að upplýsingum og öðrum gögnum. Samvinnu ef á þarf að halda sem getur reynst mjög mikilvæg í svona tilvikum.“
Þú hefur sjálfur verið nefndur í sögunni í tengslum við aflandsviðskipti. Sýnir þetta ekki að það er ekki boðlegt að stunda viðskipti í aflandsfélögum til að losna undan eftirliti, sköttum og annað í sínu heimaríki?
„Ég ætla ekki að skrifa upp á það að ég hafi verið að gera neitt slíkt. Þar skilur á milli þeirra sem gera grein fyrir sínum hlutum og þeirra sem nota aflandsfélög til að skjóta sér undan sköttum. Að sjálfsögðu erum við að berjast gegn slíku með öllum tiltækum ráðum. Og þar sem við komumst á snoðir um það að menn séu að nýta sér skattaskjól, einhverjar flóknar fyrirtækjafléttur til að skjóta sér undan skattgreiðslum; þar ætlum við að elta menn, við ætlum að ákæra þá og vonast til að þeir verði dæmdir sekir fyrir slík brot,“ segir Bjarni Benediktsson.