Björn Leví Gunnarsson, þingamaður Pírata, fékk á dögunum svar frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn sinni um meðal annars meðalkolefnisspor hvers ökutækjaflokks.
Spurt var um heildarfjölda ökutækja í hverjum ökutækjaflokki, um áætlaða meðalþyngd ökutækja, svo og um heildarfjölda ekinna kílómetra í hverjum flokki.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó Bs. segir að ýmsar rangfærslur séu uppi um umhverfisáhrif af olíuknúnum strætisvögnum sem gæti skýrst af rangtúlkun á þeim gögnum sem liggja fyrir.

Miðað við hvernig nýtingin er á einkabílnum í dag, svona um ein manneskja í hverjum bíl, þá yrði umferðin ansi þung og mengunin meiri ef þessir strætófarþegar myndu allir hætta að taka strætó og fara að keyra.
En er mengunin ekki breytileg eftir árgerð strætisvagnanna?
„Jú. Við erum með nokkra eldri bíla sem eru stærri. Þetta eru vagnar sem eru settir nokkra hringi á dag og það yfir annatíma. Þeir eru settir á stórar leiðir hjá okkur þar sem þeir eru í rauninni allir troðfullir, þetta eru leiðir 1 og 6 til dæmis.“
Spurður að því hvers vegna hann teldi að rangfærslur hafi farið á flug segir Guðmundur Heiðar:
„Það er góð spurning og erfitt að segja. Fluttar voru fréttir af því að þungir bílar eyði upp malbikinu meira en fólksbílar og síðan einhvern veginn yfirfærist það á að strætó sé að eyða malbikinu og að menga á við 7.500 fólksbíla og margir hafa bara gripið þessa tölu á lofti, því miður. Þannig getur það gerst,“ útskýrir Guðmundur Heiðar.
Ýmsir setji sig upp á móti hinni svokölluðu aðför að einkabílnum og grípi því á lofti vafasamar fullyrðingar til að réttlæta notkun á einkabílnum.
„Strætó er umhverfisvænni kostur og því fleiri sem við fáum í strætó þeim mun meira getum við minnkað loftmengun.“
Guðmundur Heiðar segir að rafvæðing strætisvagnaflotans gangi afar vel.
„Við fengum náttúrulega þessa fjórtán rafvagna á síðasta ári. Þeir hafa verið í fullri notkun á þessu ári og við sjáum fram á að geta dregið verulega úr olíueyðslu á þessu ári. Ef við tökum saman ágúst og júlí á þessu ári erum við að spara okkur um 40.000 lítra á olíu miðað við á árinu í fyrra,“ segir Guðmundur.
Fréttin var uppfærð kl. 14.24.