Það þarf að fara rúmlega hundrað ár aftur í tímann þegar spænska veikin gekk yfir Ísland og umheiminn til að finna sambærilega tíma og nú ríkja.
Heimir Már Pétursson fréttamaður fær Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til sín í Víglínuna á Stöð 2 í dag til að ræða það sem framundan er.

Ljóst er að grípa þarf til enn frekari aðgerða en nú þegar hefur verið gert. Fólk óttast eðlilega ekki bara covid19 veikina heldur einnig um eigin haga og margir spyrja hvað eigi að gera til verndar heimilunum í landinu.
Fangar eru alla jafna sá hópur samfélagsins sem er í mestri einangrun en aðstæður þeirra hafa einnig breyst vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til vegna kórónuveirunnar.
Sigurður Örn Hektorsson tók við sem yfirlæknir geðheilbrigðisteymis fanga um áramótin. Úrræði sem þrýst hafði verið á lengi en varla er hægt að hugsa sér erfiðari aðstæður en nú til að hefja þá þjónustu og þörfin fyrir hana kannski aldrei verið meiri. Sigurður Örn ræðir þessi mál í seinni hluta Víglínunnar í dag.

Víglínan er í opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 17:40 og þátturinn birtist á Vísi fljótlega að lokinni útsendingu.