Í kjölfar hruns fjármálakerfisins árið 2008 boðaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að laun æðstu embættismanna yrðu lækkuð. Þetta var til að mæta vanda þeim sem þjóðin stóð frammi fyrir. Viðmiðið var það að engin laun yrðu hærri en forsætisráðherrans sem þá, í maí árið 2009, voru 935 þúsund krónur.
Fátt bendir til þess að þingið vilji taka á sig lækkun
Lagabreytingu þurfti til að koma þessu í gegn, það er að lækka laun ýmissa ríkisforstjóra. Í dag liggur fyrir að enn dýpri kreppa en hófst árið 2008 blasir við vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Það er ef marka má orð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra sem talar um fordæmalausa efnahagskreppu; mesti samdráttur í heila öld. Hins vegar hefur komið fram að laun þingheims, ráðherra og ráðuneytisstjóra hækkuðu nú í upphafi árs að teknu tilliti til launavísitölu Hagstofunnar ársins 2018.
Almennur vinnumarkaður stendur í ljósum logum en opinberi geirinn stendur í vari – um hríð. Í samtali við Jón Þór Ólafsson þingmann Pírata þá segir hann engin merki þess að vilji þingmanna standi til þess að vilja deila kjörum með þjóðinni með lækkun launa sín.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata hefur gefið það út að hún vilji að hækkanirnar í byrjun árs gangi til baka. En, þá er verið að tala um lækkun á launum þingmanna um sem nemur 6,3 prósentum.
Bankastjórar lækkuðu í launum um tæpa milljón
Sé aftur litið um öxl, til ársins 2009, þá fóru fréttastofur yfir það hvað yfirlýsingar ríkisstjórnar Jóhönnu hefðu í för með sér með fáeinum dæmum. Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka og Finnur Sveinbjörnsson þá forstjóri Kaupþings voru með 1750 þúsund í mánaðalaun. Þetta þýðir að þeirra laun þurfa að lækka um 815 þúsund til að fara niður í laun forsætisráðherra.
Ásmundur Stefánsson kollegi þeirra í Landsbankanum er með eina og hálfa milljón í laun, þannig að hans laun þyrftu að lækka um 565 þúsund. Hulda Gunnlaugsdóttir forstjóri Landspítalans er með 1390 þúsund í mánaðarlaun, sem er 455 þúsundum meira en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur í laun.
Forstjóri Íbúðalánasjóðs, Guðmundur Bjarnason eru með laun upp á 1218 þúsund á mánuði, þannig að hans laun þyrftu að lækka um 283 þúsund og Gunnar Þ. Andersen forstjóri Fjármálaeftirlitsins er með 1250 þúsund í laun, eða 315 þúsundum meira en forsætisráðherra.
Svo fáein dæmi séu nefnd.