Þrír piltar struku á stolnum bíl af vistheimili fyrir ungmenni á Suðurlandi seint í gærkvöldi. Lögregla hélt úti miklum viðbúnaði vegna málsins en piltarnir voru loks handteknir við útihús í Þykkvabæ. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu rannsakar lögregla m.a. hvort piltarnir hafi ógnað starfsmönnum vistheimilisins.
Lögregla á Suðurlandi, sérsveit ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan komu að aðgerðum vegna málsins seint í gærkvöldi. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að lögreglu hafi borist tilkynning á ellefta tímanum um að þrír piltar hefðu stolið bifreið og strokið af vistheimili fyrir ungmenni á Suðurlandi.
„Við förum við leit að þeim og það er upplýst að þeir fara niður í Þykkvabæ. Þar eru þeir handteknir í og við útihús á sveitabæ, þeim ótengdum alveg, og færðir hér á lögreglustöð á Selfossi. Þeir eru allir ölvaðir og gistu hér í nótt,“ segir Oddur.

Oddur segir að í dag verði skýrslur teknar af vitnum, þar á meðal starfsfólki vistheimilisins, og vettvangur rannsakaður. Eftir hádegi er gert ráð fyrir að ræða við ungu mennina sjálfa.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu rannsakar lögregla nú meðal annars hvort piltarnir hafi ógnað starfsmönnum á vistheimilinu er þeir struku þaðan í gærkvöldi.
Júlíus Már Baldursson íbúi í Þykkvabæ sagði í samtali við fréttastofu í nótt að hann hefði orðið var við aðgerðir lögreglu á svæðinu. Hann kvaðst hafa farið út þegar þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir og séð þá tvo pilta fara inn í útihúsin hjá sér. Hann tilkynnti það til lögreglu, sem kom stuttu síðar og handtók piltana.