Skoðun

Staðsetning án starfa

Gauti Jóhannesson skrifar

Nýlega bárust af því fréttir að öllum aðstoðarmönnum tollvarða á Seyðisfirði hefði verið sagt upp störfum. Uppsagnirnar eru sagðar til hagræðingar í kjölfar þess að tollurinn hefur misst sértekjur vegna falls WOW og Covid–19. Í stað þess að nýta starfskrafta heimamanna, sem margir hverjir hafa margra ára reynslu, er gert ráð fyrir að fljúga tollvörðum austur á ferjudögum einu sinni í viku og væntanlega oftar ef þurfa þykir. Það er svo ótalmargt rangt við þessa ráðstöfun.

Í fyrsta lagi má draga í efa raunverulegt fjárhagslegt hagræði af því að senda tollverði frá Reykjavík til Egilsstaða með flugi einu sinni í viku með tilheyrandi ferðakostnaði og dagpeningum á meðan heimamenn fá aðeins greitt fyrir um hálfs dags vinnu við hverja komu Norrænu. Í annan stað getur sú staða komið upp að veður og/eða vetrarfærð komi í veg fyrir að tollverðir komist til Seyðisfjarðar – eða til baka. Þegar umræddar uppsagnir taka gildi verða tveir tollverðir eftir á Seyðisfirði. Sé horft framhjá þeim fordæmalausu tímum sem við nú lifum þá hefur umferð skemmtiferðaskipa stóraukist undanfarin ár og skútuumferð sömuleiðis. Varla gefur það tilefni til að slaka mögulega á í eftirliti með inn- og útflutningi ?

Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er áhersla lögð á mikilvægi þess að landið allt sé í blómlegri byggð og jafn aðgangur sé að atvinnutækifærum. Ráðuneytum og stofnunum er gert að skilgreina og auglýsa störf án staðsetningar eins og kostur er og áhersla er lögð á að: „.. stuðla að fjölbreyttum störfum og atvinnulífi sem víðast um landið.“ Í ljósi alls þessa og viðspyrnuaðgerða sem ríkið hefur boðað vegna Covid – 19, m.a. til að koma til móts við áhrif faraldursins á atvinnulífið, eru uppsagnir aðstoðarmanna tollvarða á Seyðisfirði út í hött.

Verst af öllu er, að okkur sem hafa hrærst í sveitarstjórnar- og byggðamálum undanfarin ár, kemur þetta ekki á óvart. Alltof oft undanfarin ár, höfum við staðið frammi fyrir því að orð og efndir ríkisvaldsins hvað varðar uppbyggingu atvinnu og þjónustu úti á landsbyggðunum fara ekki saman og gildir þá einu hvar í flokki menn standa.

Fyrir nýtt sameinað sveitarfélag Borgarfjarðar eystri, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar eru þetta kaldar kveðjur nú þegar styttist í að það verði formlega til.

Enn kaldari eru kveðjurnar til Seyðfirðinga sem undanfarin ár hafa horft á eftir fjölda opinberra starfa s.s. í tengslum við sýslumannsembættið og Heilbrigðisstofnun Austurlands. Ég hef fulla trú á að uppsagnir aðstoðarmanna tollvarða á Seyðisfirði verði teknar til endurskoðunar.

Gauti Jóhannesson

Höfundur er sveitarstjóri Djúpavogshrepps og fyrsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðar eystri, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×