Fjölskylda slapp heil þegar eldur kom upp í tvílyftu einbýlishúsi í Lundareykjardal í Borgarfirði snemma í morgun. Efri hæð hússins var gott sem alelda þegar slökkvilið kom á vettvang.
Slökkvilið Borgarbyggðar fékk tilkynningu um eldinn um klukkan fimm í morgun og fór fjölmennt lið á staðinn. Heiðar Örn Jónsson, varaslökkviliðsstjóri segir að mikill eldur hafi logað í húsinu þegar að var komið.
„Þegar að við komum þá er efri hæðin svo gott sem alelda. Við hefjum slökkvistarf að utan verðu og náðum tökum á þessu svona um sjö leitið í morgun,“ segir Heiðar Örn Jónsson, varaslökkviliðsstjóri í Borgarbyggð
Heimilisfólk sem býr á staðnum slasaðist ekki.
„Allir komnir út og allir heilir,“ segir Heiðar.

Skoða hvort mögulega hafi kviknað í út frá rafmagni
Slökkvistarfi lauk formlega um klukkan átta í morgun og var vettvangur afhentur lögreglunni á Vesturlandi til rannsóknar. Þá hefur verið óskað aðstoðar tæknideildar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á vettvang.
Er þetta mikið tjón?
„Já, þetta er töluvert tjón. Efri hæðin er öll ónýt af eldi og neðri hæðin er mjög skemmd vegna vatns,“ segir Heiðar.
Heiðar segir að ekki hafi verið hætta á að eldurinn myndi breiðast í aðra byggingar.
„Húsið stendur svo gott sem stakt á jörðinni, langt frá útihúsum,“ segir Heiðar.
Mikið álag hefur verið á slökkviliðsmenn í Borgarfirði að undanförnu en stutt er síðan þeir tókust á við mikinn gróðureld í Norðurárdal.
Rannsókn á því hvers vegna eldur kviknað kom upp er hafin og ekki er útilokað að kviknað hafi í út frá rafmagni.