Skoðun

Lítill ávinningur fyrir 46 milljarða

Sigríður Á. Andersen skrifar

Í dag var kynnt ný útgáfa aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

Aðgerðaáætlunin beinist einkum að losun sem kölluð er „á beina ábyrgð“ Íslands. Sú losun er nú um 3 milljónir tonna CO2-ígilda. Í áætluninni kemur fram að kostnaður vegna áætlunarinnar sé metinn á 46 milljarða króna á árunum 2020 – 2024 (sjá bls. 14).

Vonast er til að áætlunin leiði til þess að á þessu árabili (2020 – 2024) minnki losun á beina ábyrgð Íslands um 0,3 milljónir tonna (sjá mynd 1 bls. 11).

Heildarlosun Íslands er hins vegar um 15 milljónir tonna þegar allt er talið. Aðgerðaáætlunin mun því draga úr heildarlosun Íslands um 2% á árunum 2020 – 2024.

Vafalaust er þarna einhver einskiptiskostnaður og eitthvað sem nýtist með öðrum hætti, eins og reiðhjólastígar, og einhver útgjöld sem nýtast til að draga úr losun sem ekki telst á „beina ábyrgð Íslands“ eins og það er orðað. En margt er þarna óvíst eins og Borgarlínan er gott dæmi um því ef nýting hennar verður lítil þá mun hún ekki draga úr losun heldur auka hana.

En sú spurning vaknar óneitanlega hvort þarna sé ekki heldur rýr uppskera af dýru útsæði.

Með fullri virðingu fyrir mætti og dýrð ríkissjóðs Íslands þá munu sem fyrr tækninýjungar hafa mest um það að segja hvar tekst að minnka losun á næstu áratugum. Án nokkurs vafa má fullyrða að tækniframfarir og aukin hagsæld muni leiða til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Slíka þróun þekkjum við Íslendingar til dæmis af hitaveitunni en í loftslagsbókhaldinu fá Íslendingar ekkert fyrir hitaveituna því hún var komin fyrir viðmiðunarár loftslagssamninganna sem er 1990.

Er líklegt að loftslagáætlanir sem hér eru boðaðar með ærnum tilkostnaði breyti einhverju um þróun tækninnar á heimsvísu í samgöngum, landbúnaði, iðnaði, orkuframleiðslu o.s.frv?

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×