„Hlín er einstakur leikmaður,“ segir Eiður Benedikt Eiríksson, aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Vals í fótbolta, um Hlín Eiríksdóttur sem skoraði þrennu í 6-0 sigrinum á Þór/KA í kvöld.
Hlín hafði skorað fyrstu tvö mörk Vals þegar hálftími var liðinn og bætti svo við þriðja markinu snemma í seinni hálfleik. Þessi tvítugi kantmaður skoraði 16 mörk í 18 leikjum í Pepsi Max-deildinni í fyrra og virðist í frábæru formi nú í upphafi tímabils.
„Hún er tilbúin að æfa endalaust,“ segir Eiður. „Hún æfir tvisvar á dag á hverjum degi, mætir fyrst og fer síðust, og dregur mann fram úr rúminu snemma á morgnana til að taka aukaæfingar áður en maður mætir til vinnu. Hún er ótrúleg. Stundum, þegar maður vaknar klukkan sex á morgnana, er maður kannski ekki alveg til í þetta en þegar maður hittir hana með sitt bros á vör er maður alltaf tilbúinn að leggja sig fram fyrir svona leikmenn.“
Þó að Hlín sé rétt orðin tvítug hefur hún þegar spilað 14 A-landsleiki og skorað í þeim þrjú mörk. Hafi hún áhuga á því er ljóst að hún mun fara út í atvinnumennsku fyrr eða síðar:
„Ég vona innilega að Hlín taki næsta skref. Það yrði frábært fyrir Hlín og frábært fyrir íslenska landsliðið. Þetta er leikmaður sem á heima í fremstu röð og ef hún heldur áfram að bæta sig eins og síðustu tvö ár þá er ekkert að fara að stoppa hana,“ segir Eiður.
Töluðum ekkert um Þór/KA
Valskonur settu upp sýningu í dag eftir að hafa verið nokkuð frá sínu besta í 2-1 sigri á nýliðum Þróttar R. í síðustu umferð. Í dag mátti glögglega sjá að um meistaralið væri að ræða:
„Við fórum vel yfir hlutina eftir leikinn við Þrótt og ákváðum að fókusera frekar á okkur en andstæðinginn fyrir þennan leik. Mér fannst það virka vel. Við vorum ferskar í dag og það voru allar tilbúnar að berjast fyrir hvor aðra. Við töluðum ekkert um Þór/KA fyrir þennan leik en vissum að við vorum að mæta liði sem hafði skorað átta mörk í tveimur leikjum, hörkuliði sem er tilbúið að fleygja sér í allar tæklingar, en við vorum betri á öllum sviðum og nýttum þær glufur sem voru opnar. Við fengum fullt af færum. Þær fengu alveg sína sénsa en þá steig Sandra [Sigurðardóttir, markmaður] inn í og til þess er hún þarna.“