Robert Lewandowski hefur verið útnefndur leikmaður ársins í þýsku 1. deildinni í fótbolta en hann hefur átt magnað tímabil með meisturum Bayern München.
Lokaumferðin í þýsku deildinni er á morgun og er ljóst að Lewandowski verður markakóngur deildarinnar. Hann hefur skorað 33 mörk á leiktíðinni, fleiri en nokkur erlendur leikmaður hefur gert á einni leiktíð í deildinni, og er sjö mörkum á undan Timo Werner hjá RB Leipzig.
The cherry on top of a record-breaking season @lewy_official is our #BundesligaPOTS! pic.twitter.com/sn099N39HR
— Bundesliga English (@Bundesliga_EN) June 26, 2020
Lewandowski hóf tímabilið af krafti og var valinn leikmaður ágústmánaðar. Þessi 31 árs Pólverji afrekaði það meðal annars á tímabilinu að skora í 11 leikjum í röð, sem er met í þýsku deildinni, og með því að skora gegn Fortuna Düsseldorf í maí hefur hann skorað gegn öllum liðum sem nú eru í deildinni.
Bayern hefur þegar tryggt sér áttunda Þýskalandsmeistaratitil sinn í röð, sem er met, en liðið er tíu stigum á undan Dortmund fyrir lokaumferðina.
Verðlaun þýsku deildarinnar fyrir leikmann ársins eru ný af nálinni en valið er út frá atkvæðum stuðningsmanna og áliti sérfræðinga. Jordan Sancho, leikmaður Dortmund, varð í 2. sæti og Kai Havertz hjá Leverkusen í 3. sæti.