Alexander Petersson varð fertugur fyrr í þessum mánuði en heldur ótrauður áfram á handboltavellinum og hóf í vikunni æfingar fyrir komandi tímabil í Þýskalandi.
Alexander hefur leikið sem atvinnumaður í Þýskalandi í 17 ár, eða frá því að hann yfirgaf Gróttu/KR árið 2003. Hann hefur leikið með einu besta liði Þýskalands, Rhein-Neckar Löwen, frá árinu 2012 en liðið varð í 5. sæti deildarinnar á síðustu leiktíð sem ekki tókst þó að klára vegna kórónuveirufaraldursins.
Ekki er annað að sjá en að Alexander hafi hugsað vel um líkamann á meðan á hléinu frá handboltavellinum stóð en hann birti myndir frá fyrstu æfingum Löwen á Instagram-síðu sinni í vikunni. Allt er fertugum fært og ljóst að Alexander, sem sneri aftur í íslenska landsliðið á EM í janúar og stóð fyrir sínu, ætlar að láta til sín taka í vetur.
Tveir Íslendingar leika með Löwen í vetur því þar er einnig Ýmir Örn Gíslason sem kom til félagsins eftir EM og stimplaði sig inn í efstu deild Þýskalands, þá 22 ára gamall.