Enski boltinn

Saka ekki al­var­lega meiddur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Saka þurfti að fara meiddur af velli gegn Ipswich.
Saka þurfti að fara meiddur af velli gegn Ipswich. EPA-EFE/DANIEL HAMBURY

Bukayo Saka er ekki alvarlega meiddur segir Mikel Arteta, þjálfari Arsenal, eftir að vængmaðurinn fór af velli í 4-0 sigri liðsins á fallkandídötum Ipswich Town.

Saka var í sviðsljósinu í miðri viku þegar hann brenndi af vítaspyrnu en var samt sem áður meðal markaskorara í 2-1 sigri Arsenal á Santiago Bernabéu-vellinum í Madríd. Enski landsliðsmaðurinn var á sínum stað í byrjunarliði Arsenal þegar liðið fór illa með Ipswich. Saka var hins vegar tekinn af velli á 57. mínútu og óttaðist stuðningsfólk Arsenal það versta.

„Hann var aumur eftir tæklinguna en þetta virðist ekki vera neitt of alvarlegt,“ sagði Arteta eftir leik.

„Við vorum framúrskarandi fyrstu 35 mínúturnar. Skoruðum tvö og hefðum getað skorað meira en brottvísunin breytti leiknum,“ sagði Arteta einnig. Leif Davis fékk beint rautt spjald fyrir að tækla Saka aftan frá á 32. mínútu.

„Það gaf tækifæri til að spila mönnum sem hafa ekki spilað mikið að undanförnu svo margir jákvæðir punktar,“ sagði Arteta almennt um sigur helgarinnar.

Arsenal er sem stendur í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 66 stig, sjö stigum meira en Newcastle United sem er sæti neðar þegar fimm umferðir eru eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×