Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem gerð var í Bandaríkjunum árið 2018 er líklegra að rekstur fyrirtækis gangi upp til frambúðar ef stofnendur eru 35 ára eða eldri þegar rekstur hefst. Í umfjöllun Wall Street Journal segir að líkurnar á því að fyrirtækjareksturinn gangi upp til frambúðar aukist um 50% í samanburði við fyrirtækjarekstur þar sem stofnendur eru yngri en 35 ára.
Rannsóknin var gerð á vegum Kauffman Foundation og mældist meðalaldur þeirra sem stofnuðu sitt eigið fyrirtæki vera 39 ára. Eitt af því sem vekur athygli í niðurstöðum er að fólk sem stofnar sitt eigið fyrirtæki á miðjum starfsferli sínum virðist fimm sinnum líklegri til að njóta þess að reka sitt eigið fyrirtæki í samanburði við fólk sem stofnar sitt eigið fyrirtæki fljótlega eftir nám.
Tvær ástæður eru tilgreindar sérstaklega þessu til skýringar.
Í fyrsta lagi sú staðreynd að það tekur fólk alla jafna nokkurn tíma að læra að þekkja sína eigin styrkleika og öðlast reynslu. Í öðru lagi er fólk sem þegar hefur starfað fyrir aðra í nokkurn tíma, oftast fjárhagslega betur sett í samanburði við ungt fólk í fyrirtækjarekstri.
Samkvæmt tölum sem Hagstofan birti þann 8.júlí síðastliðinn höfðu fyrirtæki sem hættu starfsemi á tímabilinu 2014-2016 í 68% tilfella starfað í fimm ár eða skemur.