Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segist hafa handtekið einstakling vegna heimilisofbeldis í nótt. Tvö slík eiga að hafa komið upp og segir lögreglan í dagbók sinni að öðru þeirra hafi lokið með handtöku og flutningi í fangaklefa.
Nóttin virðist að öðru leyti hafa verið nokkuð róleg hjá embættinu. Aðeins tveir eru sagðir hafa varið nóttinni í haldi lögreglu eftir þau 58 mál sem komu inn á borð lögreglunnar frá klukkan fimm síðdegis til fimm í morgun.
Þá segir lögreglan að sex ökumenn hafi komist í kast við lögin vegna gruns um að þeir ækju undir áhrifum vímuefna og jafnframt hafi nokkrar hávaðakvartanir borist.