Gunnar Scheving Thorsteinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, og félagi hans fengu alls 550 þúsund krónur hvor í miskabætur frá ríkinu fyrir ólögmæta handtöku, húsleit og aðrar þvingunaraðgerðir í tengslum LÖKE-málið svokallaða sem upp kom 2015.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í morgun þar sem segir að embætti ríkislögmanns hafi gengið frá samkomulagi við Gunnar og félaga hans í júní um greiðslu miskabóta. Segir að í samkomulaginu felist ekki afstaða ríkislögmanns til lögmætis aðgerðanna.
Gunnar og tveir félagar hans voru á sínum tíma handteknir og vistaðir í fangageymslu, húsleit gerð og hald lagt á tölvu vegna gruns um að Gunnar hefði flett upp nöfnum kvenna í innra kerfi lögreglunnar, LÖKE, á árunum 2007 til 2013 og deilt upplýsingum um konurnar með félögum sínum. Mikið var fjallað um málið á sínum tíma en á endanum var ákveðið að falla frá ákæru í málinu.