Skoðun

Stöðvum hringrás ósýnileikans

Hulda Ragnheiður Árnadóttir skrifar

Þegar kemur að ráðningum í stjórnunarstöður á almennum markaði er gjarnan beitt svokölluðum hausaveiðaraaðferðum eða “head hunting”. Þá er leitað í tengslanetið og ráðningarstofur eru beðnar um að skima eftir heppilegum einstaklingum til að taka að sér tiltekin störf. Störf innan opinbera geirans lúta öðrum lögmálum, þar sem kröfur eru til auglýsinga á þeim, þó að á því séu undantekningar eins og ráðningar í tvær ráðuneytisstjórastöður nú nýlega bera með sér.

Það þarf ekki að velta því lengi fyrir sér hvort að sýnileiki einstaklinga fram að ráðningu í stjórnunarstöður skiptir máli eða ekki. Sýnileiki er einfaldlega mikilvæg breyta þegar kemur að því leita að hæfu fólki í stjórnendastöður.

Þegar rætt hefur verið við fjölmiðlafólk sem er mótfallið því að áherslur séu á jöfn kynjahlutföll þegar kemur að vali á viðmælendum í fréttum og fréttatengdum þáttum hafa komið fram þau rök að það sé eðlilegt að kynjahlutföll viðmælenda endurspegli kynjahlutföll stjórnenda, ráðherra, kauphallarforstjóra sveitar- og borgarstjóra o.s.frv.

Það er einmitt rót vandans. Á meðan sýnileiki einstaklinga í fjölmiðlum takmarkast við þann hóp einstaklinga sem nú þegar skipar æðstu stjórnunarstöður, eru mun minni líkur á því að breytingar verði þar á. Það er einfaldlega haldið áfram að hræra í sama pottinum með sama fólkinu sem færist á milli stjórnunarstarfa þegar það hefur setið hæfilega lengi á einum stað. Lítil endurnýjun verður vegna m.a. skorts á sýnileika nýrra aðila sem búa yfir miklum hæfileikum.

Leiðum breytinguna saman

Það þarf að finna nýjar markvissar leiðir til að fjölga í hópi þeirra sem koma til greina í hin ýmsu störf í samfélaginu. Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) er hreyfiafl sem stendur fyrir breytingum sem nauðsynlegar eru til að bæta samfélagið með aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu, öllum til hagsbóta. Rannsóknir hafa sýnt fram á að aukinn fjölbreytileiki leiði til betri ákvarðanatöku sem bætir samkeppnisstöðu fyrirtækja og þjóða. Því er mikilvægt að finna leiðir til að auka sýnileikann og auka þannig líkurnar á því að kynjahlutföllin jafnist í öllum atvinnugreinum. Ávinningurinn af því að brjóta upp þessa hringrás ósýnileika kvenna, bæði í fjölmiðlum og í æðstu stjórnunarstöðum er lykilatriði til að ná nauðsynlegum fjölbreytileika. 

Í lok árs 2019 gerði FKA óformlega könnun meðal fréttamanna á ljósvakamiðlum þar sem kallað var eftir áliti þeirra á því í hvaða starfsgreinum væri oftast vart við skort á konum sem viðmælendum. Níu starfsgreinar voru oftast nefndar; sjávarútvegur, upplýsingatækni, upplýsingaöryggi, orkumál, íþróttir, viðskipti, nýsköpun, vísindi og stjórnmál. Nú er komið að aðgerðum og verkin látin tala á árinu 2020. Við getum hætt að bíða eftir að breytingarnar komi af náttúrulegum ástæðum. 

FKA hefur skrifað undir þriggja ára samstarfssamning við RÚV þar sem ætlað er að auka hlut kvenna sem viðmælenda í fréttum og fréttatengdum þáttum. Boðið verður uppá hagnýtt viðmælendanámskeið í byrjun febrúar þar sem reyndir einstaklingar úr ljósvakamiðlum sjá um framkvæmd verkefnisins. Námskeiðið byggir á reynslu sambærilegra námskeiða sem haldin hafa verið fyrir ýmsa hópa í atvinnulífinu og MBA nema við Háskóla Íslands. 

Að þessu sinni verður þátttaka í verkefninu sérstaklega boðin þeim konum sem falla undir framangreindar starfsgreinar, óháð félagsaðild í FKA og er skráning í fjölmiðlaþjálfunina opin til og með 8. janúar 2020 á www.fka.is. Leiðum breytinguna saman og hvetjum hæfar konur til að sækja um - samfélaginu til heilla. 

Höfundur er framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands, M.sc. í fjármálum, bankastjórnun og alþjóðaviðskiptum og formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×