Ef til vill dettur fæstuml í hug að plastpokar hafi eitthvað sögulegt gildi. Minjasafnið á Akureyri hefur opnað sýningu þar sem plastpokinn er í aðalhlutverki.
Líklega er það fátt sem er hversdagslegra en plastpokinn en ef vel er að gáð getur hver plastpoki sagt örlitla sögu. Á Minjasafninu á Akureyri er til gríðarlega stórt safn plastpoka og er hluti þess nú til sýnis.
„Hann segir mikla sögu, bæði verslunarsöguna og ákveðna þróun frá kaupmanninum á horninu yfir í verslunarmiðstöðina og svona neyslusaga,“ segir Ragna Gestsdóttir, safnfræðslufulltrúi á Minjasafninu.
Á sýningunni má sjá ansi fjölbreytta flóru plastpoka og eru sumir þeirra frá áttunda áratug síðustu aldar. Þrátt fyrir að plast geti verið lengi að brotna niður í náttúrunni getur reynst erfitt að geyma þá í heilu lagi.
„Sumt bara næstum því gufar upp fyrir augunum á okkur á meðan annað er fastara fyrir en þá kannski fer það að brotna. Þetta er efni sem getur farið allt frá því að rifna og gufa upp yfir í að brotna og varðveiðslan á því er flókin,“ segir Ragna.
Frá og með næstu áramótum verður verslunum óheimilt að afhenda burðarpoka úr plasti og eru þeir því á undahaldi í samfélaginu. Margir er hreinlega mótfallnir plastpokum. En hafa þeir eitthvað varðveislugildi?
„Þeir hafa mikið gildi. Við kveikjum á minningum úr æskunni og búðunum sem við fórum í þannig að þetta hefur mikið tilfinningalegt gildi þó að hluturinn sjálfur virki ekki mjög merkilegur þá kallar hann fram svo mikil hugrenningartengsl við sögu okkar flestra allra.“