Sigurður Erlingsson, fjármálastjóri Heklu, hefur verið ráðinn sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Suður-Þingeyinga ses.
Í tilkynningu kemur fram að Sigurður sé viðskiptafræðingur af endurskoðunarsviði frá Andrews University í Bandaríkjunum (1994), með próf í verðbréfamiðlun (1998), með M.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands með áherslu á fjármál (2003) og MBA frá Háskólanum í Reykjavík (2010).
Síðastliðin þrjú ár hefur Sigurður starfað sem fjármálastjóri HEKLU hf bílaumboðs og setið í framkvæmdastjórn félagsins. Hann starfaði sem forstjóri Íbúðalánasjóðs á árunum 2010 til 2015. Hann starfaði hjá Landsbankanum á árunum 2000 til 2008, fyrst sem sérfræðingur í greiningardeild en lengst af sem forstöðumaður á alþjóðasviði bankans. Þá starfaði Sigurður sem verkefnastjóri í fjárhagslegri endurskipulagningu stærri fyrirtækja hjá NBI hf. á árunum 2008 til 2010.
Sigurður er giftur Nönnu Guðnýju Sigurðardóttur sjúkraþjálfara sem starfar sem gæðastjóri Hrafnistuheimilanna og saman eiga þau tvo drengi. Hann mun hefja störf hjá sparisjóðnum á næstu dögum.
Sparisjóður Suður-Þingeyinga ses. er ein elsta fjármálastofnun landsins en hann varð til við sameiningu fimm sparisjóða í Suður-Þingeyjarsýslu. Sá elsti þeirra, Sparisjóður Kinnunga, var stofnaður árið 1889. Hinir voru Sparisjóður Aðaldæla, Sparisjóður Fnjóskdæla, Sparisjóður Mývetninga og Sparisjóður Reykdæla. Aðalstarfstöð Sparisjóðsins er á Laugum í Reykjadal en að auki eru starfræktar tvær starfsstöðvar, annars vegar í Reykjahlíð, Mývatnssveit en hins vegar á Garðarsbraut, Húsavík.
Samkvæmt ársreikningi 2019 voru stöðugildi í árslok 2019, 10,5 talsins.