Lögreglan á Suðurlandi handtók í kvöld þrjá einstaklinga eftir að hafa veitt þeim eftirför eftir Suðurlandsvegi að Selfossi. Þeir eru grunaðir um að hafa verið á stolnum bifreiðum.
Einstaklingarnir sinntu ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og keyrðu þegar mest lét á um og yfir 140 kílómetra hraða á klukkustund, er fram kemur í tilkynningu frá lögregluembættinu.
Eftirförinni lauk þegar aðilarnir keyrðu yfir naglamottu sem lögreglumenn höfðu komið fyrir við Selfoss. Þeir voru í kjölfarið handteknir og færðir á lögreglustöð. Engin slys urðu á fólki að sögn lögreglu.