Sautján dagar eru þangað til að Íslands og Rúmenía mætast í umspili um laust sæti á EM 2020 á Laugardalsvelli en hitadúkur var lagður á völlinn á föstudag.
Guðjón Guðmundsson var á Laugardalsvellinum í dag og ræddi þar við Kristinn Jóhansson, vallarstjóra, um ástandið á vellinum.
„Við vorum mjög ánægðir með helgina. Við sáum hækkandi hitatölur í bæði jarðvegi og lofthitanum yfir vellinum. Við vorum ánægðar með þessar tölur og mér sýnist þetta vera í rétta átt,“ sagði Kristinn.
„Við eyddum síðustu viku, með hjálp fullt af sjálfboðaliðum og starfsfólki, að taka snjóinn af og koma dúkknum á. Það var aðalatriðið þá og nú inn á milli erum við í öðrum verkefnum.“
„Við þurfum að taka snjóinn af hlaupabrautinni og vinna í öðrum verkefnum innan dyra og vinna í öðrum litlum verkefnum.“
Hann segir að mörg verkefni séu framundan hjá starfsmönnum vallarins.
„Við þurfum aðeins að vinna í vellinum sjálfum. Það þarf að spreyja hann og valta hann. Við vonumst eftir því að á einhverjum tímapunkti muni dúkurinn fara niður en þá þarf að vera hlýtt úti.“
Veðrið er mikill áhrifavaldur í því hvort að dúkurinn geti farið niður eða ekki og þetta hafði Kristinn að segja um komandi veðurspár:
„Birkir Sveinsson sagði mér í morgun að vorið kæmi 20. mars. Hann hafi heyrt það einhversstaðar og ég treysti því sem Birkir segir,“ sagði Kristinn í glettnum tón en Birkir er mótastjóri KSÍ.
Allt viðtalið má sjá hér að ofan.
