Cecilía Rán Rúnarsdóttir verður í dag yngsti markvörður A-landsliðanna frá upphafi þegar hún byrjar leikinn á móti Norður Írum á æfingamótinu á Spáni.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir er fædd 26. júlí 2003 og er því 16 ára, 7 mánaða og 7 daga í dag.
Cecilía bætir þar með met Þóru B. Helgadóttur sem var hingað til yngsti landsliðsmarkvörður Íslands frá upphafi.
Þóra Björg Helgadóttir spilaði sinn fyrsta A-landsleik á móti Bandaríkjunum 10. maí 1998. Þóra er fædd 5. maí 1981 og var því nýorðin sautján ára gömul þegar hún kom inn á sem varamaður tíu mínútum fyrir leikslok í þessum leik í Bethlehem í Pennsylvaniu fylki.
Nákvæmlega var Þóra 17 ára og 5 daga gömul þegar hún spilaði sinn fyrsta A-landsleik. Leikurinn endaði með 1-0 sigri bandaríska landsliðsins.
Cecilía Rán bætir met Þóru um 148 daga með því að spila leikinn í dag.
Þóra Björg var fyrst í byrjunarliði íslenska A-landsliðsins í 2-0 tapi á móti Svíþjóð í undankeppni HM 26. ágúst 1998 eða þegar hún var 17 ára, 3 mánaða og 21 dags gömul.
Cecilía Rán bætir því byrjunarliðsmet hennar um 256 daga en Þóra á enn metið yfir að vera yngsti landsliðsmarkvörðurinn í keppnisleik.
Yngsti landsliðsmarkvörðurinn frá upphafi:
16 ára, 7 mánaða og 7 daga - Cecilía Rán Rúnarsdóttir á móti Norður Írlandi 2020
17 ára og 5 daga - Þóra Björg Helgadóttir á móti Bandaríkjunum 1998
17 ára, 9 mánaða og 27 daga - Friðrik Friðriksson á móti Færeyjum 1982
17 ára, 9 mánaða og 29 daga - María Björg Ágústsdóttir á móti Rúmeníu 2000
Cecilía bætir met Þóru í dag
