Skoðun

Krepptur hnefi verkfallsbarna

Þórdís Valsdóttir skrifar

Nú eru liðnir, að því er virðist, óteljandi dagar síðan verkfallsaðgerðir félagsmanna Eflingar í borginni hófust en lausn deilunnar virðist ekki í sjónmáli. Er ekki nóg komið?

Flest börn þrífast á rútínu, lífið gengur einfaldlega betur þegar hversdagsleikinn svokallaði er í hámarki. Venjulegir dagar þar sem börn þurfa ekki að fylgja foreldrum sínum eftir í vinnu, foreldrar taka sér leyfi úr vinnu eða börnin eru á vergangi hjá vinum og vandamönnum.

Verkfallið er farið að taka sinn toll af geðheilsu barnanna og í mínum veruleika endurspeglaðist það í krepptum hnefa dóttur minnar, verkfallsbarnsins, sem skall á andlitið á mér eftir einn af þessum verkfallsdögum þar sem öll stórfjölskyldan hafði lagt sitt á vogarskálarnar til þess að láta púslið ganga upp.

Þegar þetta er skrifað hafa samningsaðilar ekki fundað í sex daga, það er að mínu mati virðingarleysi við þau 3500 börn sem verkfallið hefur áhrif á.

Ég skal taka því á hnefanum að skipuleggja heimilislífið, eiga daglega skipulagsfundi með maka mínum og reyna að útskýra á einfaldan máta fyrir dætrum mínum hvernig dagarnir eru og munu verða. Ég get þó ekki sætt mig við að aðgerðarleysi samningsaðila bitni á geðheilsu barnanna.

Að mínu mati eiga börnin það skilið að þið fundið, í það minnsta.

Höfundur er lögfræðingur, útvarpskona og móðir tveggja leikskólabarna.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×