Skoskir þjóðernissinnar greindu í dag frá áformum sínum um að leggja fram ný drög að annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði sem þeir ætla að leggja fram fyrir þingkosningar á næsta ári. Meirihluti Skota hafnaði sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014.
Kórónuveirufaraldurinn hægði tímabundið á hugmyndum Skoska þjóðarflokksins (SNP) um að hefja undirbúning að nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði í vor. Aukinn stuðningur við sjálfstæði í skoðanakönnunum hefur gefið þjóðernissinnum byr undir báða vængi og reyna þeir nú að sæta lags á meðan færi gefst, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Nicola Sturgeon, oddviti skosku heimastjórnarinnar og leiðtogi Skoska þjóðarflokksins, hét því í dag að leggja fram drög að frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þingkosningar á næsta ári. Í drögunum kæmi fram hvernig spurning um sjálfstæði yrði orðuð og dagsetning þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Búist er við því að Skoski þjóðarflokkurinn vinni meirihluta í kosningunum á næsta ári. Það ætla þeir sé að nýta til þess að þrýsta á Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, að fallast á nýja þjóðaratkvæðagreiðslu. Breska þingið þarf þó að samþykkja slíka tillögu og Íhaldsflokkur Johnson hefur ítrekað lýst sig mótfallinn því að Skotar verði aftur spurðir um hug sinn til sjálfstæðis.