Þremur leikjum lauk nú rétt í þessu í A-deild Þjóðadeildar UEFA. Belgar sigruðu Dani, Frakkar unnu Svía og Portúgal vann sannfærandi sigur á Króatíu.
Í riðli Íslendinga í A-deildinni, Riðli 2, mættust Danmörk og Belgía í Kaupmannahöfn. Belgía fór með nokkuð þægilegan 0-2 sigur af hólmi. Jason Denayer kom þeim yfir á 9. mínútu og í seinni hálfleik, á 77. mínútu, innsiglaði Dries Mertens 2-0 sigur Belga. Belgía því á toppnum í riðlinum eftir fyrstu umferð.
Tveir leikir fóru fram í Riðli 3. Portúgal vann öruggan 4-1 sigur á Króatíu, silfurliðinu á HM 2018, á heimavelli sínum í Lissabon. Joao Cancelo, Joao Felix, Diogo Jota og Andre Silva skoruðu mörk Portúgala en Cristiano Ronaldo tók ekki þátt í leiknum vegna sýkingar í fæti.
Frakkland marði Svíþjóð í Stokkhólmi, 0-1. Eina mark leiksins skoraði Kylian Mbappé á 41. mínútu. Antoine Griezmann hefði getað breytt stöðunni í 2-0 í uppbótartíma en klúðraði vítaspyrnu. Paul Pogba var ekki með Frakklandi í leiknum þar sem hann greindist með kórónuveiruna á dögunum, en Anthony Martial, samherji Pogba hjá Manchester United, kom inná sem varamaður og spilaði sinn fyrsta landsleik síðan árið 2018.