Skoðun

Alþjóðlegi jafnlaunadagurinn – árangur og áframhaldandi tækifæri

Víðir Ragnarsson skrifar

Fyrsti alþjóðlegi jafnlaunadagurinn er haldinn í dag 18. september og það er sérstaklega ánægjulegt að þessi dagur sé orðinn að veruleika eftir tillögu Íslands að honum til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna.

Mikill árangur hefur náðst í baráttu við kynbundinn launamun hér á landi. Þar er helst að þakka jafnlaunavottun sem var sett í lög árið 2017. Jafnlaunavottun hefur sett á dagskrá fyrirtækja og stofnana það verkefni að mæla kynbundinn launamun og byggja innan sinna raða upp stjórnkerfi til þess að sporna við launamun sem mismunar eftir kyni.

Kynbundinn launamunur og mælingar á honum eru eitt en því miður eru laun karla og kvenna annað. Mælingar á kynbundnum launamun og því hvort sé mismunað í launum fyrir jafnverðmæt störf leiðréttir fyrir þeim áhrifum sem mjög kynbundinn störf og kynbundin ábyrgð felur í sér.

Launamunur karla og kvenna er 20% í heiminum í dag, í Evrópu er hann í kringum 15% og hér á Íslandi fá konur 14% lægri laun fyrir sín störf en karlar. Þessar tölur eru alls ekki áberandi í umræðunni um laun og kynbundinn launamun á Íslandi. Þær varpa hins vegar ljósi á þær sorglegu staðreyndir að konur sinna í mun minna mæli en karlar þeim störfum sem við metum til hærri launa og bera í minna mæli ábyrgð sem metin er til launa.

OR samstæðan hefur lengi látið sig jafnréttismál og jafnlaunamál varða. Við höfum þróað leiðir og verklag til þess að vakta kynbundinn launamun mjög náið. Þannig höfum við nú í þrjú ár haldið leiðréttum kynbundnum launamun innan við 1%, sem hefur á því tímabili bæði mælst körlum og konum í vil. Við höfum einnig lagst í verkefni til að jafna hlut kynja er varðar ábyrgð, störf og tækifæri. Í dag mælist raunverulegur munur á launum karla og kvenna hjá OR 5,2% fyrir einungis fjórum árum var þetta hlutfall 14% hjá fyrirtækinu.

Það starf sem unnið er af stjórnvöldum, í fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi að því að minnka kynbundinn launamun er góðra gjalda vert og hefur víða náðst gríðarlegur árangur. Tækifærin við að ná raunverulega jöfnum launum felast þó í því að skoða raunlaun karla og kvenna án þess að „leiðrétt“ sé fyrir verðmætamati sem felur í sér kynbundna mismunun á störfum og ábyrgð.

Höfundur er verkefnastjóri Jafnréttismála OR




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×