Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir til skoðunar að grípa til hertra aðgerða vegna faraldurs nýju kórónuveirunnar. Verði það gert, sé markmiðið að kveða niður þessa bylgju eins hratt og auðið er og sagðist hann aðallega vera að velta því fyrir sér að herða fjöldatakmarkanir. Einstaklingsbundnar varnir skili þó mestum árangri.
Þetta sagði Þórólfur á upplýsingafundi í dag en hann sagði einnig að ekki væri rétt að leita að sökudólgum og margar ástæður megi rekja til þess að veiran hafi átt hægara um vik að dreifa sér.
Búið er að fjölga verulega í smitrakningateymi lögreglunnar. Það teymi þarf að ræða við rúmlega 500 manns í dag.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði á fundinum að forsvarsmenn þeirra skemmtistaða sem stór hluti nýsmitaðra virðist hafa sótt, hafi verið hvattir til að stíga fram og biðja viðskiptavini um að fara í skimun.
Forsvarsmenn staðanna hafa beðið um að nöfn þeirra verði ekki opinberuð og lögreglan telur sig ekki hafa heimild til þess.
Þórólfur vísaði til þess að veiran væri í mikilli útbreiðslu víða um heim. Önnur ríki væru að sjá nýjar bylgjur og það ætti vafalaust eftir að gerast aftur á Íslandi, þegar búið er að ná tökum á þessari bylgju.
Báðir sögðu þeir reyna á samstöðu Íslendinga og hvöttu ítrekað til þess að einstaklingar hugi að eigin sóttvörnum. Passi upp á handaþvott, sprittnotkun, halda eins metra reglunni, forðast mannmarga staði og haldi sig heima ef það finnur fyrir einkennum.