Skoðun

Burt með tóbak og veip - og verjum lungun gegn árás Co­vid-19

Tómas Guðbjartsson skrifar

Enn er margt á huldu um hvaða einstaklingar það eru sem þróa með sér alvarlega lungnasýkingu af völdum Covid-19 veirunnar. Við vitum þó að þeir sem veikjast lífshættulega af þessari veiru fá bráðan lungnaskaða sem kallast ARDS (acute respiratory distress syndrome) og þurfa meðferð í öndunarvél á gjörgæslu. 

Bæði veip og reykingar valda auknu áreiti á slímhúðir í öndunarvegi og lungu og veikja varnir þeirra þannig að næmi fyrir sýkingum eykst. Þar að auki er vel staðfest að veip, sérstaklega þegar það er notað með kannabisolíu, getur skaðað lungun lífshættulega og valdið einmitt ARDS. Einnig sýna rannsóknir ótvírætt að þeir sem fá hefðbundna influensu og reykja fá frekar alvarlegar lungnasýkingar. 

Þótt enn skorti ítarlegri rannsóknir þá eru að greinast víða um heim ARDS-tilfelli í ungu fólki af völdum Covid-19 þar sem grunur liggur á að veip komi við sögu, því aðrir áhættuþættir virðast ekki vera til staðar. 

Þetta er mikilvægt í ljósi þess að allt að þriðjungur íslenskra grunnskóla- og framhaldsskólanema veipa að staðaldri. Þeir sem veipa eða reykja ættu því klárlega að nota tækifærið nú og hætta strax. Í staðinn má nota nikótíntyggjó, púst eða plástra við nikótínfráhvarfi. Einnig eru til lyf gegn lyfseðli sem eingöngu er ætlað til að hætta reykingum og eru ekki geðlyf. 

Með lungnaverndandi aðgerðum sem þessum er áreiti á lungun minnkað og þau fá aukið svigrúm til að takast á við veiru sem kýs að hreiðra um sig í lungum. Lungun eru nefnilega gerð til að taka við hreinu lofti og eiga nóg með Covid-19 vírusinn svo ekki sé verið að íþyngja þeim með óþarfa mengun af völdum veips og tóbaks.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×