Skoðun

Jafnréttið kælt

Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Í vor upplifðum við ákveðið bakslag í jafnréttisbaráttunni. Menntamálaráðherra ákvað að stefna konu fyrir dóm sem hafði leitað ásjár kærunefndar jafnréttismála og þar fengið þá niðurstöðu að gegn henni hefði verið brotið við skipun í embætti.

Ríkisstjórnin hefur vissulega lagalega heimild til að gera þetta en heimildinni hefur ekki verið beitt fyrr en nú. Sennilega af þeirri einföldu ástæðu að það hefur ekki þótt smart að stefna konum fyrir dóm í kjölfar þess að kærunefnd hefur sagt að á þeim hafi verið brotið.

Nú er fjármálaætlun til umræðu á þinginu og þar er rakið að undir jafnréttismál falla aðgerðir hins opinbera á sviði kynjajafnréttis sem og jafnrétti í víðtækri merkingu. Þar er líka rakið að unnið sé að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla stefnumótun og ákvarðanatöku. Þetta er mikilvægt atriði. Það hefur nefnilega mikið að segja um árangur í jafnréttismálum að löggjafinn sé meðvitaður um að lagasetning sem er almenn og virðist kynhlutlaust getur í reynd haft ólík áhrif á kynin.

Auðvitað þurfa ráðherrar að skoða pólitísk áhrif ákvörðunar á borð við að stefna manneskju sem brotið hefur verið gegn við ráðningu. Þetta er kynhlutlaust lagaákvæði sem mun bitna á konum frekar en körlum, einfaldlega vegna þess að enn hallar á konur á vinnumarkaði. Það eru konur sem leita til kærunefndarinnar og fari ráðherrar í auknum mæli að stefna konum – og núna líka kærunefndinni skv. nýju frumvarpi forsætisráðherra – er um að ræða lagasetningu sem hefur dramatískari áhrif á konur en karlar. Og ég leyfi mér að segja kælandi áhrif á jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé jafnréttispólitík sem femínískt stjórnmálaafl eins og VG fellir sig við. Lögleg er þessi leið stjórnvalda en femínísk er hún tæpast.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×