Samkvæmt tölfræði UEFA, Evrópska knattspyrnusambandsins, var Gylfi Þór Sigurðsson næstbesti leikmaður gærkvöldsins í umspilinu um sæti á EM 2020.
Gylfi skoraði bæði mörk Íslands í sigrinum á Rúmeníu, 2-1, á Laugardalsvellinum í gær. Ísland mætir Ungverjalandi í Búdapest í hreinum úrslitaleik um sæti á EM 12. nóvember.
Eini leikmaðurinn sem toppaði Gylfa í gær samkvæmt tölfræði UEFA var Serbinn Sergej Milinkovic-Savic. Hann skoraði bæði mörk Serbíu í 1-2 sigri á Noregi sem Lars Lagerbäck stýrir.
Top 5 players tonight in the FedEx Performance Zone rankings!
— UEFA EURO 2020 (@EURO2020) October 8, 2020
Who was your team's star? #EQrankings | @FedExEurope pic.twitter.com/yvfCXw1SeW
Í 3. sæti á listanum yfir bestu frammistöðu gærkvöldsins var Rade Krunic. Hann skoraði mark Bosníu í 1-1 jafntefli við Norður-Írland. Norður-Írar unnu svo í vítaspyrnukeppni, 3-4.
Annar leikmaður sem tók þátt í leiknum á Laugardalsvelli í gær er í 4. sæti listans, Rúmeninn Andrei Burca. Hann fiskaði vítaspyrnuna sem Alexandru Maxim skoraði mark rúmenska liðsins úr.
Í 5. sæti listans er svo verðandi andstæðingur Íslendinga í úrslitaleik umspilsins; Ungverjinn Zsolt Kalmár. Hann skoraði annað mark Ungverja í 1-3 sigri á Búlgörum í Sofíu í gær.