Skóli hefst að nýju á mánudagin í Sunnulækjarskóla á Selfossi. Niðurstöður eru komnar úr umfangsmikilli sýnatöku hjá um 550 nemendum og 50 starfsmönnum skólans í gær. Enginn reyndist smitaður af kórónuveirunni.
Þetta staðfestir Birgir Edwald, skólastjórinn í Sunnlækjarskóla, í samtali við Vísi. Hann segir visst spennufall að fá þessi tíðindi sem séu auðvitað mjög gleðileg.
„Þá getum við dregið þá ályktun að sóttvarnir sem við höfum beitt hafi komið að gangi,“ segir Birgir.
„Við munum engu að síður læra af reynslunni og vanda okkur enn frekar.“
Birgir var í þann mund að senda út tölvupóst til foreldra nemenda í skólanum sem ætla má að fagni tíðindunum.
46 eru í einangrun á Suðurlandi og 114 í sóttkví samkvæmt upplýsingum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.