Ragnar Freyr Ingvarsson, umsjónarlæknir Covid-göngudeildar Landspítala, segir að staðreyndir sem hann hafi nefnt í svari sínu við málflutningi Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um kórónuveiruaðgerðir óumdeildar. Þar á meðal séu staðreyndir um stærð fyrri bylgju faraldursins, ástand á núverandi bylgju og vangaveltur um hvað mögulega sé að vænta.
Brynjar birti í gær færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann meðal annars setti spurningamerki við útreikninga Ragnars Freys sem hann setti fram í pistli í gær og gagnrýndi Brynjar fyrir afstöðu sína til kórónuveiruaðgerða.
Landsþekktur grillari í læknastétt tók fram grillspaðann í gær til að grilla heimsku þingmannsdrusluna, Náði læknirinn...
Posted by Brynjar Níelsson on Friday, October 9, 2020
Brynjar fullyrti í samtali við mbl.is á fimmtudag að heilbrigðiskerfið gæti ráðið við fleiri Covid-sjúklinga. Þá sagði hann að ríkisstjórnin hlyti að velta því oft upp hvort ástæða væri til að fara rólegar í sóttvarnaaðgerðir en skaðsemi þeirra kynni að vera meiri en augljós heilsufarslegur skaði af völdum veirunnar.
Ragnar gagnrýndi þessa afstöðu Brynjars í pistli sem hann birti á Facebook á fimmtudag og sagði hann ljóst að ef faraldurinn fengi að dreifast um samfélagið án þess að gripið yrði til takmarkana myndi fjöldi sýktra margfaldast.
Brynjar svaraði pistli Ragnars á Facebook í gær og kallaði hann Ragnar „landsþekktan grillara í læknastétt“ og vísaði þar til þess að Ragnar er þekktur matgæðingur undir nafninu Læknirinn í eldhúsinu.
Brynjar Níelsson birtir þessa færslu um athugasemdir mínar við málflutning hans um hættur COVID-19 faraldursins. Ég...
Posted by Ragnar Freyr Ingvarsson on Friday, October 9, 2020
Ragnar svarar þessu í Facebook-færslu sem hann birti í gærkvöldi og segir hann miður að Brynjar skyldi kalla hann „hrokafullan grilllækni.“
„Sem eru viss vonbrigði þar sem ég hef reynt við fleiri tegundir eldamennsku í gegn um árin. Sous vide, franska, sænska, þýska, ítalska… sem eru tilefni í miklu skemmtilegri viðurnefni!“ skrifar Ragnar. „Ég verð augljóslega að gera betur.“