Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir reiknar með að skila í vikunni tillögum til heilbrigðisráðherra um aðgerðir sem taka gildi 18. nóvember.
Reikna má með einhvers konar slökunum á þeim hertu aðgerðum sem standa til 17. nóvember. Þó boðar Þórólfur að farið verði hægt í tilslakanir. Það sé hans tillaga hið minnsta.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundinum í dag. Tíu manna samkomubann á landinu gildir til og með 17. nóvember næstkomandi. Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar eru lokaaðar, aðeins matvöruverslanir hafa heimild til fleiri en tíu gesta auk þess sem áhrif á skólana eru mikil.
Þar sagði hann ekki tímabært að fara nánar út í tillögur sínar á þessu stigi. Hann skoraði á landsmenn alla að fara eftir leiðbeiningum og reglum áfram svo hægt sé að viðhalda þeim árangri sem við séum að sjá í tölum yfir smitaða þessa dagana.
„Þá ættum við að geta séð fram á góða aðventu og jól.“
Sextán greindust með veiruna í gær og voru 88% í sóttkví. Um er að ræða hæsta hlutfall síðan tilfellum fór að fjölga verulega í september.