Líklegast þykir að eldur sem kviknaði í frystihúsi Hríseyjar Seafood í Hrísey í lok maí síðastliðnum hafi kviknað út frá glóð sem barst í pappa og plast í húsinu. Vinna við suðu hafði staðið yfir í frystihúsinu nokkru áður en eldurinn kom upp og er glóðin rakin til þeirrar vinnu, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Norðurlandi eystra.
Fiskvinnsla Hríseyjar Seafood brann til kaldra kola í eldsvoðanum að morgni 28. maí, sem lýst hefur verið sem sannkölluðum stórbruna. Tjón var gríðarlegt, bæði efnis- og tilfinningalegt fyrir íbúa í eynni og eigendur fiskvinnslunnar. Eldfimt efni og búnaður í húsinu gerði slökkviliðsmönnum jafnframt erfitt fyrir á vettvangi.
Bergur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á Norðurlandi eystra segir í samtali við Vísi að rannsókn á brunanum sé á lokametrunum. Skýrslur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og tæknideild lögreglu á höfuðborgarsvæðinu staðfesti það sem ályktað hafði verið í sumar.
„Þeir finna ekkert í gögnum sem staðfesta að rafmagn hafi komið þarna að. Þeir telja líklegast að um sé að ræða slys og byggja það á frásögnum vitna um atvik, hvar eldurinn kemur upp,“ segir Bergur.
Líklegasta skýringin sé að glóð hafi borist í pappa og plast.
„Sem síðan hefur komið upp eldur í. Það var verið að vinna við suðu þarna um kvöldið, nokkurn tíma áður en eldur kom upp, og farið glóð úr því.“
Eldurinn kom þannig að öllum líkindum upp af mannavöldum – en af gáleysi. Út frá gögnum málsins reiknar Bergur með að rannsókninni verði hreinlega hætt og engar ákærur gefnar út.