Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, segir þörf á að setja verulegt fjármagn í að lagfæra Landakot. Sú endurhæfing sem fari fram þar megi ekki tapast. Nýtt hús sé ekki byggt á einum degi og það kosti sömuleiðis fjármagn.
„Við höfum í sjálfu sér sofið á verðinum gagnvart þeirri miklu fjölgun eldri borgara sem hefur átt sér stað og mun eiga sér stað,“ sagði Þórunn í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þórunn sagði að þau úrræði sem væru í boði í dag væru ekki fullnægjandi. Mikil bið væri eftir hjúkrunarrýmum og hún reyndist mörgum erfið. Þó væri mun betra að komast í endurhæfingu en að enda á sjúkrahúsi.
Sjá einnig: „Fullkominn stormur“ á Landakoti
Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður stýrihóps um nýjan Landspítala, segir að skilgreina þurfi betur hlutverk Landspítalans og hvernig stjórnvöld sjái þróun hans til lengri tíma fyrir sér. Nýja þarfagreiningu þurfi einnig, þar sem sú sem farið er eftir í dag sé sé frá 2008. Margt hafi breyst síðan þá.
„Sú greining mun auðvitað byggja á þeim forsendum sem heilbrigðisyfirvöld leggja til. Síðan þarf að fara í framkvæmdir og byggja meira en það sem þegar hefur verið ákveðið,“ sagði Unnur.