Erlent

Rúmur helmingur ó­hress með Trump

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Annað kjörtímabil Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta er rétt að byrja.
Annað kjörtímabil Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta er rétt að byrja. AP/Alex Brandon.

Rúmur helmingur Bandaríkjamanna er óánægður með frammistöðu Donalds Trump fyrstu mánuði hans í embætti forseta samkvæmt nýrri könnun. Frammistaðan er þó í takt við væntingar meirihluta þjóðarinnar.

Senn hefur Trump setið í embætti forseta Bandaríkjanna í hundrað daga á sínu öðru kjörtímabili sem forseti. Í tilenfi af tímamótunum er afstaða þjóðarinnar til forsetans gjarnan könnuð. Niðurstöður könnunar AP- fréttaveitunnar og félagsvísindastofnunarinnar NORC benda til þess að framistaða forsetans sé í takt við það sem þjóðin bjóst við af Trump.

Um sjö af hverjum tíu svarenda könnunarinnar segja kjörtímabilið hefjast líkt og við var að búast, en um þriðjungur segir byrjunina koma á óvart. 

Þá telur rúmur helmingur svarenda að forsetinn hafi staðið sig illa eða mjög illa, sextán prósent segja frammistöðuna í meðallagi en um þriðjungur kveðst ánægður með frammistöðu forsetans. Spurt var einnig um afstöðu svarenda til forgangsröðunar. Þar sagðist um fjórðungur telja forgangsröðun forsetans vera rétta, 44 prósent telja forgangsröðun ranga en um tuttugu prósent telja hana vera í jafnvægi. Tíu prósent töldu sig ekki vita nóg til að svara. 

Minnstu vinsældir forseta í 70 ár

Niðurstöður könnunar AP ríma að einhverju leyti við könnun CNN sem birt var í dag. Samkvæmt þeirri könnun er Trump óvinsælasti forseti Bandaríkjanna í sjö áratugi, sé miðað við frammistöðu á upphafi kjörtímabilsins. Könnuð var afstöða almennings til forsetans nú þegar styttist í að hann hafi verið hundrað daga í embætti á sínu öðru kjörtímabili sem forseti. 

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar nýtur Trump stuðnings fjörutíu og eins prósents þjóðarinnar, sem er lægsta vinsældahlutfall forseta við upphaf kjörtímabils síðan í embættistíð Dwight D. Eisenhower á sjötta áratug síðustu aldar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×