Ísak Bergmann Jóhannesson var á sínum stað í byrjunarliði Norrköping er liðið lagði Falkenbergs 4-1 í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Christoffer Nyman skoraði þrennu í liði Norrköping í kvöld, öll úr vítaspyrnum.
Gestirnir komust þó yfir strax á 2. mínútu leiksins þökk sé marki John Chibuike. Jöfnuðu heimamenn metin rúmlega tuttugu mínútum síðar. Markið skoraði Nyman af vítapunktinum og staðan orðin 1-1. Hann var svo aftur á ferðinni á 32. mínútu sem og tveimur mínútum eftir það, bæði mörkin einnig af vítapunktinum.
Staðan því orðin 3-1 þegar 34. mínútur voru liðnar og þannig var hún í hálfleik. Nyman fór svo að af velli fyrir Ishaq Abdulrazak þegar klukkutími var liðinn og tók það Ishaq aðeins átta mínútur að komast á blað.
Staðan orðin 4-1 og reyndust það lokatölur í kvöld. Norrköping því með 43 stig í 5. sæti þegar tvær umferðir eru eftir. Liðið á enn möguleika á að enda í 3. sæti deildarinnar.
Ísak Bergmann lék allan leikinn á miðju Norrköping í kvöld.