Aron Jóhannsson, framherji sænska úrvalsdeildarliðsins Hammarby, stefnir ekki á að vera áfram í Svíþjóð þegar samningur hans rennur út í janúar. Aron, sem á að baki 19 landsleiki fyrir bandaríska landsliðið, stefnir á að reyna fyrir sér í MLS-deildinni þar í landi eða þýsku úrvalsdeildinni.
Þessi þrítugi framherji ræddi við íþróttavefinn ESPN í dag og fór þar framtíðaráform sín. Hann lék með Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni en var mikið frá vegna meiðsla. Það heillar að snúa þangað aftur.
In an interview with @SebiSalazarFUT , #usmnt forward Aron Johannsson says he ll leave Hammarby in January, and is exploring MLS and Bundesliga options. https://t.co/WokUUotS0O
— Jeff Carlisle (@JeffreyCarlisle) November 25, 2020
„Eftir að tímabilinu lýkur er útlit fyrir að ég muni fara frá Hammarby. Veit ekki nákvæmlega hvert en eins og staðan er núna mun ég yfirgefa félagið í janúar. Frá því að ég yfirgaf Þýskaland hefur mér fundist ég þurfa að fara þangað aftur og sýna hvað í mér býr. Sanna að ég sé nægilega góður til að spila þar í landi.“
Aron er í dag fjórði markahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar. Hann hefur skorað 12 mörk í 22 leikjum á leiktíðinni. Framherjinn er laus við meiðsli í dag og skoðar einnig að snúa aftur til Bandaríkjanna.
Hann hefur eins og áður sagði leikið 19 leiki fyrir landslið Bandaríkjanna og gert í þeim fjögur mörk.
„Hef alltaf sagt að markmið mitt sé að spila í MLS-deildinni. Ég hef mikinn áhuga á deildinni og mig hefur dreymt um að spila í henni í langan tíma,“ sagði Aron að lokum við ESPN.