Arnór Guðjohnsen er annar tveggja Íslendinga sem mættu Diego Maradona heitnum á fótboltavellinum. Það var í boðsleik Anderlecht og Barcelona 1983. Ásgeir Sigurvinsson mætti argentínska snillingnum einnig í úrslitum Evrópukeppni félagsliða 1989 þar sem Napoli sigraði Stuttgart, 5-4 samanlagt.
Maradona lést í gær, sextugur að aldri. Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Arnór um Maradona. Þar greinir hann frá því að til hafa staðið að sonur hans, Eiður Smári, lyki ferlinum undir stjórn Maradonas.
„Ég hitti hann svo fyrir leik Íslands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018. Þá spjallaði ég við hann í boðssal fyrir leikinn og það fór bara vel á með okkur,“ sagði Arnór við Fréttablaðið.
„Hann var kurteis og þægilegur í samskiptum sínum við mig en við rifjuðum upp þegar það stóð til að Maradona tæki við liði einhvers staðar á Arabíuskaganum og það voru þreifingar um að Eiður Smári myndi ljúka ferlinum þar undir hans stjórn. Það var gaman að hitta hann þarna í Moskvu.“
Maradona var í miklum ham á leik Íslands og Argentínu á HM fyrir tveimur árum eins og áður öðrum leikjum Argentínumanna á mótinu.
Maradona stýrði tveimur liðum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum á þjálfaraferlinum. Hann var þjálfari Al Wasl 2011-12 og Fujairah 2017-18. Þegar hann lést var hann þjálfari Club de Gimnasia y Esgrima La Plata í heimalandinu.