Matur

Jólaboð Evu: Graflax, lambarifjur, kartöflugratín og eftirréttir

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Í fyrsta þætti af Jólaboð með Evu fengu áhorfendur meðal annars að sjá Evu Laufey bera fram graflax, lamb og Ris a la Mande.
Í fyrsta þætti af Jólaboð með Evu fengu áhorfendur meðal annars að sjá Evu Laufey bera fram graflax, lamb og Ris a la Mande. Stöð 2

Þættirnir Jólaboð með Evu fóru af stað um helgina og verða sýndir alla sunnudaga fram að jólum. Í þáttunum gefur Eva Laufey Kjaran góðar hugmyndir fyrir mat og bakstur yfir hátíðarnar. Allar uppskriftirnar má finna hér í fréttinni.

Í fyrsta þætti útbjó Eva Laufey graflax og graflaxsósu í forrétt. Fyrir aðalréttin eldaði hún lambarifjur með öllu tilheyrandi, kartöflugratín og rauðvínssósu. Í eftirrétt varð hinn klassíski Ris a la Mande fyrir valinu. Auk þess bakaði hún rjómaostatoppa og gaf hugmynd að súkkulaðipinnum sem eru frábær gjöf á aðventunni. 

Eva Laufey fór af stað með nýja þætti í gær.Stöð 2

Forréttur

Graflax 

  • ·800 g lax, beinlaus
  • ·200 g gróft salt
  • ·200 g sykur
  • ·8 piparkorn
  • ·2 msk vatn
  • ·1 búnt dill
  • ·½ sítróna

Aðferð:

  1. Setjið sykur, salt, piparkorn, vatn og handfylli af dilli í matvinnsluvél og maukið fínt.
  2. Leggið laxaflakið í eldfast mót eða beint í plastfilmu, roðhliðin snýr niður. Stráið saltblöndunni jafnt yfir fiskinn og saxið restina af dillinu og setjið ofan á. Gott er að rífa börk af hálfri sítrónu og setja yfir í lokin. Pakkið laxinum vel inn í plastfilmu eða setjið plastfilmu yfir eldfasta mótið. Setjið eitthvað þungt ofan á til dæmis mjólkurfernu og geymið laxinn í kæli í 24 – 48 klst.
  3. Skolið laxinn með köldu vatni eftir þann tíma og þerrið aðeins áður en þið berið hann fram með fersku dilli og ljúffengri sósu.

Graflaxsósa

  • 1 dós sýrður rjómi 36%
  • 2 msk Dijon sinnep
  • 1 msk hlynsíróp
  • handfylli ferskt dill
  • Salt og pipar
  • 1 msk sítrónusafi

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið með töfrasprota. Smakkið ykkur gjarnan til og bragðbætið að vild.
  2. Best er að geyma sósuna í kæli í 30 mínútur áður en hún er borin fram.
Forrétturinn var graflaxStöð 2



Aðalréttur

Lambarifjur með öllu tilheyrandi

  • 1 kg lambarifjur
  • Salt og pipar
  • 2 msk smjör
  • 2 msk dijon sinnep
  • Handfylli steinselja
  • 2 msk saxað timían
  • 2 msk saxað rósmarín
  • 1 hvítlauksrif
  • 1 ½dl brauðrasp
  • 1 msk ólífuolía

Aðferð:

  1. Útbúið kryddhjúpinn með því að setja steinselju, timían, rósmarín, hvítlauksrif, brauðrasp og ólífuolíu í matvinnsluvél og maukið vel.
  2. Skolið og þerrið lambakjötið, kryddið með salti og pipar og nuddið upp úr olíu.
  3. Steikið á öllum hliðum þar til kjötið hefur brúnast vel, bætið smjöri út á pönnuna og hellið duglega yfir kjötið á meðan þið steikið kjötið.
  4. Færið kjötið af pönnunni, penslið kjötið með dijon sinnepi og veltið því næst upp úr kryddhjúpnum.
  5. Því næst fer kjötið inn í ofn við 200°C í 30 – 35 mínútur.
  6. Leyfið kjötinu að hvíla í 7- 10 mínútur áður en þið berið það fram.

Klippa: Jólaboð Evu - Aðalréttur - Lambarifjur með öllu tilheyrandi

Kartöflugratín

  • 1 kg bökunarkartöflur
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 msk smjör
  • Salt og pipar
  • Ferskt timían
  • ½ - 1 tsk nýmöluð múskathneta
  • 1 kjúklingateningur
  • 150 g gratínostur
  • 150 g rifinn Tindur
  • 500 ml rjómi

Aðferð:

  1. Flysjið kartöflurnar og skerið þunnt.
  2. Smyrjið eldfast form með smjöri, rífið niður hvítlauk og nuddið hvítlauknum í formið.
  3. Raðið kartöflunum í eldfast móti, saltið og piprið á milli laga auk þess sem þið sáldrið fersku timían yfir og rífið smávegis af múskathnetu. Myljið kjúklingateninginn yfir og sáldrið smávegis af ostinum á milli laga og endurtakið leikinn þar til að þið eruð komin með lagskipt gratín.
  4. Hellið rjómanum yfir gratínið og bakið við 180°C í 50 – 55 mínútur, leyfið gratíninu að standa í smá stund áður en þið berið það fram.

Rauðvínssósa

  • Ólífuolía
  • 1 laukur
  • 2 gulrætur
  • 5 sveppir
  • 1 stk anísstjarna
  • 8 piparkorn
  • 4 dl nautasoð
  • 3 dl rauðvín
  • 100 g smjör

Aðferð:

  1. Skerið lauk, sveppi og gulrætur í litla bita, steikið upp úr olíu í smá stund.
  2. Bætið anísstjörnu, piparkornum, rauðvíni og nautasoði út í pottinn og sjóðið þar til það eru ca. 2 dl eftir og takið soðið af hitanum, sigtið sósuna og bætið því næst smjörinu saman við í nokkrum pörtum.
  3. Berið sósuna strax fram.
Lambaréttur Evu.Stöð 2



Eftirréttur 

Ris a la Mande

Grauturinn - Uppskrift

  • 2 ½ dl grautargrjón
  • 1 L nýmjólk
  • Fræin úr einni vanillustöng
  • Salt á hnífsoddi
  • 70 g hvítt súkkulaði

Aðferð:

  1. Penslið pott með smá smjöri en það kemur í veg fyrir að grjónin og mjólkin brenni við.
  2. Hellið mjólkinni í pottinn og leyfið suðunni að koma upp, bætið þá grjónunum út í pottinn og hrærið vel í.
  3. Kljúfið vanillustöngina í tvennt, skafið fræin innan úr og setjið í pottinn.
  4. Sjóðið grautinn við vægan hita í 35 – 40 mínútur. Hrærið af og til í pottinum, það er mjög auðvelt að brenna grautinn við og þess vegna þarf að fylgjast vel með.
  5. Þegar grauturinn er tilbúinn bætið þið smátt söxuðu hvítu súkkulaði saman við og hrærið, súkkulaðið bráðnar í grautnum og gefur honum einstaklega fallega áferð.
  6. Kælið grautinn mjög vel áður en þið útbúið Ris a la Mande. Best er að gera grautinn deginum áður og þá kólnar hann í rólegheitum yfir nótt.

Ris a la Mande

  • 1 skammtur grautur (uppskriftin hér að ofan)
  • 500 ml rjómi
  • 2 msk flórsykur
  • 100 g möndlur, hakkaðar og ristaðar
  • Góð sósa, til dæmis söltuð karamellusósa eða kirsuberjasósa

Aðferð:

  1. Þeytið rjóma og bætið flórsykrinum saman við.
  2. Blandið rjómablöndunni saman við grautinn með sleikju.
  3. Hakkið möndlur, ristið þær og kælið. Þegar þær eru kaldar þá bætið þið þeim við grautinn, mér finnst ágætt að setja 70% í grautinn en geyma 30% af möndlunum til skrauts.
  4. Hellið nú grautnum í fallega skál eða skálar. Hellið góðri sósu yfir og sáldrið ristuðum möndluflögum yfir áður en þið berið eftirréttinn fram.
Eftirréttur sem klikkar ekki.Stöð 2



Bakstur 

Rjómaostatoppar með hvítu súkkulaði

  • 220 g smjör
  • 200 g hreinn rjómaostur
  • 225 g púðursykur
  • 225 g sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 600 g hveiti
  • ½ tsk salt
  • 3 tsk kanill
  • 1 tsk lyftiduft
  • 4 msk mjólk
  • 100 g hvítt súkkulaði

Til að rúlla deiginu í:

  • 100 g sykur
  • 2 tsk kanill

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C. Hrærið smjöri, rjómaosti og sykri saman þar til blandan verður kremkennd.
  2. Bætið eggjum út í, einu í einu og hrærið vel á milli.
  3. Setjið þurrefnin saman við deigið og hrærið vel. Hellið mjólkinni út í deigið í nokkrum skömmtum. Kælið deigið í 30 mínútur eða lengur.
  4. Mótið litlar kúlur með teskeiðum, rúllið upp úr kanilsykri og leggið á pappírsklædda ofnplötu. Bakið við 180°C (blástur) í 13 – 15 mínútur.
  5. Bræðið hvítt súkkulaði og hellið yfir kökurnar í lokin.
Rjómaostatoppar með hvítu súkkulaðiStöð 2



Jólamatargjöf 

Súkkulaðipinnar

  • 300 g suðusúkkulaði
  • 1 msk kókosolía
  • Skraut að eigin vali, til dæmis bismark brjóstsykur, sykurpúðar og jólastafir.
  • Pinnar, ég notaði kökupinna

Aðferð:

  1. Bræðið súkkulaði og kókosolíu saman í potti við vægan hita.
  2. Hellið súkkulaðinu í til dæmis bollakökuform, skreytið með sælgæti og setjið pinna ofan í. Kælið mjög vel þar til súkkulaðið er orðið stíft.
  3. Hitið mjólk, setjið einn pinna ofan í bolla og fyllið upp með heitri mjólk. Hrærið stöðugt í og þá eruð þið komin með ljúffengan bolla af heitu súkkulaði.
  4. Frábær gjöf!
Súkkulaðipinnarnir eru fallegir á borðið og sem gjöf.Stöð 2







×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.